Deilum milli flugáhafna Air Canada og stjórnenda flugfélagsins hefur lokið með bráðabirgðasamkomulagi en meira en tíu þúsund starfsmenn hafa staðið í verkfallsaðgerðum undanfarna daga vegna launa og vinnuálags.

Á vef BBC segir að samkomulagið hafi ekki enn verið birt en hefur þó verið staðfest af bæði verkalýðsfélaginu CUPE (e. Canadian Union of Public Employees) og flugfélaginu sjálfu.

Verkfallsaðgerðir höfðu staðið yfir síðan á laugardaginn og hafa haft áhrif á fleiri þúsund farþega sem áttu bókuð flug með Air Canada. Deilurnar stigmögnuðust jafnframt þegar verkalýðsfélagið hafnaði fyrirmælum frá kanadísku iðnaðarsambandsnefndinni um að snúa aftur til vinnu.

Búist er við því að flug hefjist á ný seinna í nótt en það gæti tekið nokkra daga að koma fullri flugþjónustu í eðlilegan farveg þar sem flugvélar og áhöfn eru ekki tilbúin á áætluðum áfangastöðum.