Bandarískir flugfarþegar hafa höfðað mál gegn Delta Air Lines og United Airlines en þeir halda því fram að flugfélögin hafi rukkað þau aukalega fyrir gluggasæti og endað síðan á því að sitja við gluggalausan vegg.
Á vef BBC segir að fleiri en milljón viðskiptavinir krefji bæði flugfélögin um milljónir dala í skaðabætur og segja að félögin hafi til að mynda ekki merkt gluggalausu gluggasætin í bókunarferlinu, þrátt fyrir að hafa innheimt aukagjald fyrir þau.
Málsóknirnar hafa verið höfðaðar af lögfræðistofunni Greenbaum Olbrantz en í kæruskjölum segir að sumar farþegaflugvélar frá Boeing og Airbus væru með gluggalaus gluggasæti vegna staðsetningar loftkælingarstokka, raflagna eða annarra íhluta.
Í málaferlunum segir að margir farþegar kaupi gluggasæti af ýmsum ástæðum, þar á meðal vegna útsýnisins, flughræðslu eða til að halda börnum uppteknum í miðju flugi.
Önnur bandarísk flugfélög eins og American Airlines og Alaska Airlines notast við svipaðar þotur en upplýsa þó viðskiptavini í bókunarferlinu ef um er að ræða gluggasæti sem er án glugga.