Eins og Viðskiptablaðið hefur greint frá var Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, tekjuhæsti Íslendingurinn árið 2024 með 4,6 milljarða króna í fjármagnstekjur. Skammt á eftir kemur Árni Oddur Þórðarson, fyrrverandi forstjóri Marel með 3,7 milljarða.

Fleiri forstjórar eru á listanum yfir tekjuhæstu Íslendingana. Á eftir Þorsteini og Árna kemur Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, en hann var með 799 milljónir í fjármagnstekjur í fyrra. Októ Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Ölgerðarinnar, var örlítið ofar með 802 milljónir.

Neðar á listanum má finna Kristján Loftsson, forstjóra Hvals, sem var með 501 milljón og Guðmund Fertram Sigurjónsson, forstjóra Kerecis, með 469 milljónir. Magnús Sverrir Þorsteinsson, forstjóri Blue Car, var þá með 394 milljónir og Þorsteinn Kristjánsson, forstjóri Eskju, með 392 milljónir. Loks var Rannveig Eir Einarsdóttir, forstjóri Reir Verks, með 230 milljónir.

Listi yfir 150 tekjuhæstu Íslendinganna birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann í heild hér.

Listinn byggir á útreikningi samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Um er að ræða skattskyldar fjármagnstekjur þ.e. vaxta- og leigutekjur, arðgreiðslur, söluhagnað og eftir atvikum höfundarréttargreiðslur.