Framkvæmdir við stærsta uppbyggingarsvæði Reykjavíkur á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog munu hefjast brátt í kjölfar þess að 30 metra hátt fjarskiptamastur var tekið niður fyrr í dag. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, var viðstaddur þessi tímamót er nýr kafli í uppbyggingarsögu höfuðborgarinnar hófst. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.
Stærsta uppbyggingarsvæði Reykjavíkur næstu ár verður í nýjum borgarhluta á Ártúnshöfða og við Elliðaárvog. Nú hefur nýtt deiliskipulag fyrir svokallað svæði 1 tekið gildi þar sem gert er ráð fyrir allt að 1.570 íbúðum í bland við fjölbreytta atvinnustarfsemi við kjarnastöð Borgarlínu.
Sjá einnig: Hryggjarstykkið í uppbyggingunni
Verkefnið hefur verið í undirbúningi um langt skeið en er nú að komast á framkvæmdastig. Víkjandi starfsemi er að mestu leyti farin og niðurrif eldri bygginga að hefjast.
Fasteignaþróunarfélagið Klasi hefur um árabil unnið að þróun svæðisins í samtarfi við Reykjavíkurborg. Verkefni Klasa nefnist Borgarhöfði sem nær yfir stærstan hluta svæðis 1 og er í hjarta þessa nýja borgarhluta.