Framtakssjóðir sem einbeita sér að fjárfestingum í Kína eiga nú í vandræðum með að safna nýju fé. Aukin tortryggni er á meðal fjárfesta af vaxandi stjórnmála- og markaðsáhættu vegna kínverska hagkerfisins, segir í frétt Bloomberg .
Hlutabréfamarkaðurinn í landinu hefur lækkað og skráningum á markað verið frestað. Svokallaðar „útgöngur" framtakssjóða, þar sem þeir selja í félögum sem þeir hafa fjárfest í, drógust saman um 30% á seinni hluta ársins 2021. Þá hafa sérhæfðir sjóðir verið að færa sig yfir á aðra markaði innan Asíu, að minnsta kosti til skamms tíma.
Margir stofnanafjárfestar hafa dregið úr fjárfestingum sínum í Kína en hins vegar eru minni sjóðir og fjárfestingafélög ennþá líkleg til að fjárfesta í landinu í leit sinni að fjárfestingum í heilbrigðisgeiranum sem geti gefið mikla ávöxtun.