Þorsteinn Már Baldvinsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, var tekjuhæsti Íslendingurinn árið 2024 en fjármagnstekjur hans námu ríflega 4,6 milljörðum króna. Helga S. Guðmundsdóttir, fjárfestir og fyrrverandi eiginkona Þorsteins, var þá næsttekjuhæst með tæplega 4,6 milljarða í fjármagnstekjur. Þau eiga saman 600 Eignarhaldsfélag ehf. en samanlagt greiddu þau meira en tvo milljarða í fjármagnstekjuskatt.
Í þriðja sæti var Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Eyris Invest og fyrrverandi forstjóri Marels, en fjármagnstekjur hans námu 3,7 milljörðum króna. Þórður Magnússon, faðir Árna Odds og fyrrverandi stjórnarformaður Eyris, var í fjórða sæti með tæplega 3,4 milljarða í fjármagnstekjur. Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest var stærsti hluthafi Marels með 24,7% hlut fyrir yfirtöku JBT á Marel í fyrra.
Aðrir einstaklingar sem áttu hlut í Marel fyrir yfirtöku JBT rata á listann. Súsanna Sigurðardóttir, sem var einn stærsti hluthafinn í Marel, eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst, var til að mynda með 3,2 milljarða í fjármagnstekjur og Ingunn Sigurðardóttir með 1,6 milljarða.
Sigurður E. Guttormsson, rekstrarstjóri Trackwell, Einar Guttormsson og Guttormur Einarsson voru þá með á bilinu 800-900 milljónir í fjármagnstekjur. Ekki er ólíklegt að fleiri einstaklingar á listanum yfir 150 tekjuhæstu Íslendingana hafi átt hlut í Marel.
Samanlagt námu fjármagnstekjur þeirra 150 sem voru tekjuhæstir árið 2024 tæplega 80 milljörðum króna. Er það talsvert meira en árið 2023 þegar samanlagðar fjármagnstekjur 150 tekjuhæstu námu 67 milljörðum króna. Árið áður námu heildarfjármagnstekjur 150 efstu 69 milljörðum.
Hægt er að nálgast lista yfir 150 tekjuhæstu Íslendingana árið 2024 í Viðskiptablaðinu, sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta séð listann í heild hér.
Listinn byggir á útreikningi samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Um er að ræða skattskyldar fjármagnstekjur þ.e. vaxta- og leigutekjur, arðgreiðslur, söluhagnað og eftir atvikum höfundarréttargreiðslur.