Gamma Capital Management, dótturfélag Kviku banka, var fyrr í mánuðinum dæmt til að greiða fyrrverandi starfsmanni frestaðan kaupauka sem kom aldrei til greiðslu. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Gamma til að greiða starfsmanninum fyrrverandi 1,2 milljónir króna auk dráttarvaxta og 750 þúsund krónur í málskostnað.

Í málinu krafðist starfsmaðurinn fyrrverandi greiðslu frestaðs kaupauka vegna ársins 2017 sem Gamma afturkallaði með bréfi til hans í september 2020. Gamma greiddi út 60% af ákvörðuðum kaupauka í apríl 2018 en 40% greiðslunnar, sem nam 1,2 milljónum og var stefnufjárhæð málsins, var frestað til þriggja ára eða til 30. apríl 2021 líkt og kveðið var á um í ráðningarsamningi.

Fram kemur samhljóða tilkynning um afturköllun frestaðra kaupaukagreiðslna var beint til þeirra starfsmanna Gamma sem fengið höfðu greiddan kaupauka á sama tíma sem voru um 10-20 manns talsins.

Sjá einnig: Verðmiði Gamma lækkað um 1,7 milljarða

Gamma var selt til Kviku banka í nóvember 2018 og voru viðskiptin samþykkt af Samkeppniseftirlitinu í mars 2019. Stefnandinn sagði starfi sínu lausu hjá Gamma í febrúar 2019 og ákvað að hefja störf annars staðar í maí sama ár þrátt fyrr að hafa verið boðið starf hjá Kviku.

Líkt og kom fram hér að ofan var honum tilkynnt í september 2020 um afturköllun á frestuðum kaupaukagreiðslum vegna áranna 2017 og 2018. Í bréfinu sagði að ákvörðun um kaupaukagreiðslur hefði verið tekin á grundvelli rekstrarárangurs félagsins á árunum 2017 og 2018“.

Síðar hafi óháð úttekt á starfsemi félagsins m.a. leitt í ljós að „aðferðafræði við mat á afkomu félagsins hafi ekki verið forsvaranleg og mati á virði eigna sjóða var ábótavant“. Þá sagði að vegna þessa og annarra atvika hefði ákvörðun um kaupauka árin 2018 og 2019 verið byggð á röngum forsendum. Fjárhagsstaða og afkoma Gamma á tímabilinu sem kaupaukar hefðu verið veittir fyrir hefði verið verri en fyrirliggjandi upplýsingar hefðu gefið til kynna.

Forsendur fyrir útgreiðslu frestaðs kaupauka væru því ekki til staðar. Jafnframt var tekið fram að samhljóða tilkynning hefði verið send til allra starfsmanna sem fengið hefðu greiddan kaupauka á sama tíma.

Stefnandinn mótmælti ákvörðuninni með bréfi í október 2020 þar sem hann sagði að í ákvörðun um kaupauka til sín vegna áranna 2017 og 2018 hefði hvergi verið vikið að tengslum kaupaukans og heildarafkomu Gamma eða fjárhagsstöðu félagsins almennt og hann hefði hvorki fyrr né síðar séð nokkur gögn þar að lútandi. Þá var bent á að fjárhagsstaða og afkoma Gamma á kaupréttartímabilinu væri ekki á meðal þeirra „aðstæðna“ sem heimiluðu félaginu að afturkalla þegar ákveðinn kaupauka, áð frátöldu skilyrði um eigið fé sem átti ekki við í málinu.

Gamma hafnaði þessu með bréfi í nóvember 2020 og sagði að það væri algerlega ljóst af fyrirliggjandi samningum að heimilt væri að afturkalla frestaðan hluta kaupaukagreiðslna að hluta eða að öllu leyti „ef tilskilinn árangur hlutaðeigandi viðskiptaeiningar hefur ekki náðst“. Árangursmarkmið sjóða í rekstri Gamma hafi ekki náðst og og jafnframt hefðu væntingar um endurheimtur af útlánasafni sjóðanna ekki raungerst heldur þvert á móti hefðu útlán tapast í mun meira mæli en væntingar hefðu staðið til.

„Lægsti samnefnari“ fyrir alla starfsmenn

Héraðsdómur taldi rökstuðningur Gamma fyrir ákvörðun, sem var ætlað að vera bindandi gagnvart starfsmanninum fyrrverandi ekki mjög skýr. Í málinu kom fram að alveg samhljóða tilkynningu um afturköllun frestaðra kaupaukagreiðslna var beint til þeirra starfsmanna Gamma sem fengið höfðu greiddan kaupauka á sama tíma sem voru um 10-20 manns talsins.

Hafi afturköllunin að því leyti verið almennt orðuð og bréfið þannig „lægsti samnefnarinn“ fyrir alla starfsmenn en ákvörðunin ekki sérstaklega rökstudd gagnvart hverjum og einum.

Gamma tók þó fram í bréfinu til fyrrverandi starfsmannsins að félagið áskildi sér allan rétt til að tefla fram frekari rökstuðningi og/eða frekari kröfum á síðari stigum, gerðist þess þörf. Af framburði framkvæmdastjóra Gamma fyrir dóminum virðist sem forsvarsmenn hans hafi litið svo á að unnt væri, og nægilegt, að senda út almennt orðaða afturköllun til hvers og eins starfsmanns og að það myndi svo ráðast í hverju tilviki fyrir sig hvort frekari rökstuðnings yrði óskað.

„Eftir á að hyggja kynni þó að vera að rétt hefði verið að orða þetta með nákvæmari hætti. Það hefði verið ákveðið að segja „frekar minna en meira“ í bréfinu þar sem svona væri „viðkvæmt mál“ og „segja ekkert sem ekki hefði komið fram opinberlega“ þar sem menn hefðu ekkert vitað „hvert þessar tilkynningar myndu fara“ og hugsunin hafi verið „að veita mönnum færi á að láta þar við sitja“,“ er haft eftir framkvæmdastjóranum í dómnum.

Héraðsdómur féllst á að Gamma væri bundið þeim aðstæðum sem tilgreint var í fyrra bréfinu til starfsmannsins fyrrverandi í september 2020. Gamma verði að bera hallann af því að hafa ekki tilgreint forsendur og skilyrði afturköllunar, sem hann félagið byggði á fyrir dóminum að hafi verið til staðar, með „skýrari hætti en raun ber vitni“.

Jafnframt hafi Gamma í málinu ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir því að tilskilinni frammistöðu starfsmannsins eða viðskiptaeiningar hans hafi ekki verið náð þannig að rétt hafi verið að hafna greiðslu eftirstöðva kaupaukans. „Stefndi hefur raunar ekki upplýst á neinn hátt hver þau viðmið voru og hvernig þeim var, að hans mati, ekki náð. Af þessu verður stefndi að bera hallann,“ segir í dómnum.