Gengi bréfa Eimskips hefur hækkað um 4,9% það sem af er degi og stendur gengið nú í 560 krónum á hlut. Viðskipti með bréfin nema rúmum 500 milljónum króna.

Félagið birti ársfjórðungsuppgjör eftir lokun markaða í gær. Félagið hagnaðist um 12,5 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi, eða sem nemur 1,85 milljörðum króna miðað við gengið í lok mars.

Hagnaður félagsins jókst um 2 milljónir evra á milli ára, eða sem nemur 300 milljóna króna hagnaðaraukningu.

Skel tekur við sér og Sýn hækkar mest

Gengi bréfa Sýnar hefur hækkað mest allra á markaði í dag, um 5,65% í 160 milljón króna veltu. Icelandair hefur hækkað um 3,6% í um 560 milljóna veltu.

Þá hefur gengi bréfa Skeljar fjárfestingafélags tekið við sér og hækkað um 3,2% það sem af er degi, en veltan er óveruleg.

Heilt yfir hefur gengi bréfa 17 félaga á markaði hækkað það sem af er degi. Íslandsbanki og Alvotech eru einu félögin sem hafa lækkað í dag, bæði um rúmlega 0,8%.

Brim og Iceland Seafood birta ársfjórðungsuppgjör eftir lokun markaða í dag. Gengi bréfa Brims hefur hækkað lítillega það sem af er degi og gengi Iceland Seafood staðið í stað.