Úrvalsvísitalan hækkaði lítillega í 6,1 milljarðs króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Líkt og síðustu viðskiptadaga var mesta veltan með hlutabréf Íslandsbanka, eða um 2,6 milljarðar króna. Gengi Íslandsbanka hækkaði um 0,8% og stendur nú í 127 krónum sem er um 8,5% hærra en söluverðið í útboði Bankasýslunnar í síðustu viku.
Hlutabréfaverð Haga hélt áfram að hækka í dag og hefur nú alls hækkað um 15% í ár. Gengi Haga, móðurfélags Bónuss, Hagkaups og Olís, stendur nú í 77,8 krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra. Gengi Festi, móðurfélag Krónunnar og N1, er einnig í hæstu hæðum eftir 1,7% hækkun í dag og stendur í 244 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Festi hefur hækkað um 8% í ár.
Gengi Icelandair hækkaði um 1,7% í 122 milljóna veltu og stendur nú í 1,8 krónum á hlut. Play hækkaði sömuleiðis um 0,9% og er gengi flugfélagsins nú 22,8 krónur.
Þrjú félög lækkuðu á aðalmarkaðnum í dag, þar af var mesta veltan með bréf Marels sem lækkuðu um 0,8% í 450 milljóna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 734 krónum.