Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um 1,4% í 2,6 milljarða króna veltu í dag og stendur nú í 130,2 krónum á hlut. Gengi bankans hefur aldrei verið hærra frá skráningu síðasta sumar og er nú 11% yfir söluverðinu í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut ríkissjóðs sem fór fram fyrir tveimur vikum.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,8% í 8,5 milljarða krónu veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar. Er sú hækkun nokkuð í takt við þróun á mörkuðum erlendis en Stoxx Europe 600 vísitalan hefur hækkað um 0,8% í dag, FTSE 100 um 0,3% og S&P 500 um hálft prósent. Þá má nefna að vísitölufyrirtækið FTSE Russell tilkynni á föstudaginn að Ísland yrði fært upp í flokk nýmarkaðsríkja í haust en Kauphöllinn sagði að uppfærslan muni hafa í för með sér innflæði „verulegs fjármagns“.

Sjá einnig: Íslenski markaðurinn færður upp um flokk

Sextán af tuttugu félögum aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins. Icelandair leiddi hækkanir en gengi flugfélagsins hækkaði um 2,6% í 424 milljóna veltu og er nú komið upp í 1,98 krónur á hlut. Hlutabréfaverð Icelandair hefur ekki verið hærra síðan í lok febrúar en gengið lækkaði nokkuð í byrjun mars og fór lægst í 1,5 krónur á hlut þann 8. mars. Síðan þá hefur Icelandair hækkað um þriðjung. Play hækkaði einnig um 0,4% í 66 milljóna veltu í dag.

Útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan hækkuðu bæði um meira en 2% í dag og hefur hlutabréfaverð þeirra aldrei verið hærra. Gengi Brims stendur í 98 krónum á hlut og hefur nú hækkað um nærri 29% frá áramótum. Hlutabréf Síldarvinnslunnar er komið upp í 103 krónur.

Hlutabréf fasteignafélaganna þriggja á aðalmarkaðnum hækkuðu öll í dag. Gengi Reita hefur nú hækkað um 16,5% á fyrstu þremur mánuðum ársins, Regins um 18,5% og Eikar um 22,8%.