Mesta veltan á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 0,8% í 1,2 milljarða viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 762 krónum á hlut og hefur hækkað um 12% frá því að það fór niður í 678 krónur þann 8. mars. Hlutabréfaverð félagsins hefur ekki verið hærra frá 23. febrúar síðastliðnum, degi áður en Rússar réðust inn í Úkraínu.

Það voru hins vegar útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan sem hækkuðu mest í viðskiptum dagsins, en tiltölulega lítil velta með bréf félaganna. Brim náði sínu hæsta dagslokagengi frá skráningu í 93,5 krónum og gengi Síldarvinnslunnar er aftur komið upp í 100 krónur.

Hlutabréfaverð Icelandair lækkaði um 1,6% í 200 milljóna veltu í dag og stendur nú í 1,86 krónum á hlut. Gengi flugfélagsins hefur þó enn hækkað um 5% frá lokun Kauphallarinnar á föstudaginn. Smásölufyrirtækin Festi og Hagar lækkuðu einnig bæði í dag.