Úrvalsvísitalan hækkaði um meira en eitt prósent í 3,9 milljarða króna veltu í dag. Mesta veltan eða um 1,2 milljarðar króna, var með hlutabréf Alvotech sem hækkuðu um 3%. Gengi Alvotech, sem tilkynnti í morgun um sölusamning í Bandaríkjunum við dótturfélag Cigna, stendur nú í 2.080 krónum á hlut.

Hlutabréfaverð líftæknifyrirtækisins Oculis, sem var skráð í Kauphöllina fyrir viku, hækkaði um 6,4% í 780 milljóna króna veltu í dag. Gengi hlutebréfa Oculis stendur nú í 1.840 krónum á hlut og hefur hækkað um nærri 9% frá dagslokagenginu á fyrsta viðskiptadeginum í Kauphöllinni, 23. apríl.

Auk Alvotech og Oculis þá hækkuðu hlutabréf Skeljar og Íslandsbanka um meira en 2% í dag.

Hlutabréf fimm félaga á aðalmarkaðnum lækkuðu um meira en eitt prósent. Þar af lækkaði Skagi, móðurfélag VÍS, um meira en 2%. Gengi Skaga stendur nú í 16,7 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í lok febrúar.

Viðskiptablaðið fjallaði í dag um að gengi hlutabréfa Icelandair hefði farið undir 1 krónu í fyrstu viðskiptum í dag. Til að setja það í samhengi þá fór dagslokagengi flugfélagsins síðast undir 1 krónu í nóvember 2020. Gengi Icelandair rétti aðeins úr kútnum þegar leið á daginn og stóð í 1,01 krónu við lokun Kauphallarinnar.