Hlutabréfaverð fjölmiðla - og fjarskiptafélagsins Sýnar hækkaði um tæp 5% í viðskiptum dagsins og var dagslokagengið 26,6 krónur.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í dag hafa stjórnendur félagsins verið að kaupa bréf í kjölfar uppgjörs í vikunni.
Fjárfestingarfélagið InfoCapital ehf., sem er í 97% eigu Reynis Grétarssonar, keypti hlutabréf í Sýn fyrir 50,8 milljónir króna í gær. Alls keypti félagið 2 milljónir hluta á genginu 25,4 krónur á hlut.
InfoCapital á eftir kaupin 12 milljónir hluta í Sýn, eða um 4,8% eignarhlut sem er um 319 milljónir króna að markaðsvirði miðað við núverandi 26,6 króna markaðsgengi hlutabréfa Sýnar.
Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, keypti hlutabréf í fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækinu fyrir 10,2 milljónir króna í gær í gegnum félagið Krummi Kapital ehf. sem hún á ásamt eiginmanni sínum Sævari Péturssyni.
Alls keypti Herdís 400 þúsund hluti á genginu 25,4 krónur á hlut.
Um er að ræða önnur kaup Herdísar í Sýn frá því að hún tók við forstjórastöðunni hjá fyrirtækinu í janúar 2024. Samtals á hún 750 þúsund hluti í Sýn í dag sem eru um 18,2 milljónir króna að markaðsvirði miðað við dagslokagengi félagsins í gær.
Þess má geta að forstjóra og framkvæmdastjórn Sýnar var veittur kaupréttur í nóvember 2024, þar sem grunnverðið var 30,46 krónur á hlut og hækkar árlega um 7,5%. Herdísi var veittur kaupréttur að samtals 2.000.000 hlutum.
Hlutabréfaverð Brims og Síldarvinnslunnar hækkuðu einnig í viðskiptum dagsins en sjávarútvegsfélögin skiluðu árshlutauppgjörum eftir lokun markaða í gær.
Gengi Brims hækkaði um tæp 2% á meðan gengi Síldarvinnslunnar hækkaði um rúmt 1%.
Hlutabréfaverð Oculis lækkaði um rúm 4% í viðskiptum dagsins og fór gengi félagsins niður í 1.990 krónur eftir um 75 milljón króna viðskipti í dag.
Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,14% og var heildarvelta á markaði 2,3 milljarðar.