Hlutabréf í danska orkufyrirtækinu Ørsted féllu um 18 prósent í fyrstu viðskiptum í morgun eftir að Trump-stjórnin fyrirskipaði skyndilega stöðvun á uppbyggingu 10,5 milljarða danskra króna vindorkuverkefnisins Revolution Wind í Bandaríkjunum.
Gengið féll niður, 175 danskar krónur á hlut, sem er það lægsta í sögu félagsins en markaðsvirði minnkaði í um 74 milljarða danskra króna.
Revolution Wind-verkefnið, sem er 80 prósent fullbyggt, átti að hefja framleiðslu á næsta ári og sjá 350 þúsund heimilum í Rhode Island og Connecticut fyrir rafmagni með 20 ára langtímasamningum.
Bandaríska orkumálastofnunin BOEM vísaði til „þarfar á að gæta þjóðaröryggishagsmuna“ í tilkynningu sinni en gaf engar frekari skýringar.
Fjárfestar óttast nú að óvissan muni grafa undan áformum Ørsted um að afla nýs hlutafjár fyrir 60 milljarða danskra króna til að fjármagna bæði Revolution Wind og systurverkefnið Sunrise Wind.
„Það er spurning hvort félagið geti haldið áfram með hlutafjárútboð með þessa óvissu yfir sér,“ sagði Jacob Pedersen, greiningaraðili hjá Sydbank, en Financial Times greinir frá.
Ørsted, sem eitt sinn var talið leiðandi í orkubyltingu hins græna hagkerfis, hefur orðið fyrir þungum höggum undanfarin misseri vegna hækkandi vaxta, pólitísks þrýstings og vaxandi efasemda Bandaríkjastjórnar um vindorkuverkefni.
Hlutabréf félagsins hafa nú lækkað um nærri 90 prósent frá hæsta gengi árið 2021.
Greiningaraðilar hjá Citi telja að tafir líkt og þær sem Equinor varð fyrir fyrr á þessu ári geti seinkað hlutafjárútboði Ørsted og hugsanlega minnkað umfang þess, sérstaklega ef kostnaður við tafirnar verður mikill.
Samband Bandaríkjanna og Danmerkur hefur versnað á valdatíma Trumps, einkum eftir ummæli forsetans um að Bandaríkin vilji taka yfir Grænland. Þróunin hefur skapað pólitíska spennu sem gæti nú haft bein áhrif á danska orkufyrirtækið.
Til samanburðar hafa Noregur og Equinor notið betri samskipta við Bandaríkin, m.a. vegna persónulegra tengsla Jens Stoltenbergs fjármálaráðherra við Trump, en jafnvel þar kostuðu tafir á svipuðu verkefni Equinor um 5,6 milljarða danskra króna áður en því var loks heimilað að halda áfram.
Framhaldið ræðst af því hvort danska ríkið, sem er stærsti hluthafi Ørsted, styður áfram við félagið og hvort Bandaríkjastjórnin muni aflétta banni sínu á næstu vikum.
Hvað sem því líður hefur hrunið í dag vakið spurningar um hvort Ørsted muni neyðast til að endurmeta alla framtíð sína á bandarískum vindorkumarkaði.