Eigendur verktakafyrirtækisins Fjarðarmóta ehf. í Hafnarfirði rata á lista yfir þá sem voru með hæstu fjármagnstekjurnar árið 2024. Hjálmar Rúnar Hafsteinn er stærsti eigandi Fjarðarmóta með 22,9% hlut en fjármagnstekjur hans námu 273 milljónum. Óttar Arnaldsson, Steinn Sigurðsson, Ómar Sigurjónsson og Ólafur Börkur Guðmundsson, fóru þá með 19,3% hlut hver en fjármagnstekjur þeirra voru á bilinu 176-232 milljónir króna.
Fyrirtækið hefur sinnt nokkrum stórum byggingaverkefnum á síðustu árum. Í ársreikningi Fjarðarmóta fyrir árið 2024 segir að framkvæmdir félagsins sem hófust á árinu 2020 í Úlfarsárdal sé lokið en ein íbúð var óseld um áramótin.
Framkvæmdir sem hófust árið 2022 í Hamranesi í Hafnarfirði væru langt komnar og yrði lokið sumarið 2025. Framkvæmdum við Straumhellu sem hófust 2024 myndi væntanlega ljúka á árinu 2025.
Fyrir ári síðan var greint frá því að Hafnafjarðarbær hafi samið við Fjarðarmót um uppbyggingu við Hafnarfjarðarhöfn.
Fjarðarmót veltu 1,6 milljörðum króna í fyrra, 2 milljörðum árið 2023, og 2,6 milljörðum árið 2022. Hagnaður ársins 2024 nam 516 milljónum króna, samanborið við 631 milljón árið 2023 og 786 milljónir árið 2022. Félagið greiddi 1,5 milljarða í arð árið 2024 og leggur stjórn félagsins til að 192 milljónir verði greiddar í arð í ár.
Listi yfir 150 tekjuhæstu Íslendinganna birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann í heild hér.
Listinn byggir á útreikningi samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Um er að ræða skattskyldar fjármagnstekjur þ.e. vaxta- og leigutekjur, arðgreiðslur, söluhagnað og eftir atvikum höfundarréttargreiðslur.