Hvalaskoðunarfyrirtækið Gentle Giants var með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, uppkveðnum í byrjun viku en birtum í dag, dæmt til að greiða Hafnarsjóði Norðurþings 5,4 milljónir króna, auk dráttarvaxta frá byrjun nóvember 2016, vegna vangreiddra farþegagjalda. Dómkrafa málsins var margfalt hærri en ekki fallist á hana í heild.
Krafa Hafnarsjóðsins náði allt aftur til ársins 2008 en sjóðurinn byggði á því að innborgunum félagsins hefði ávallt verið ráðstafað inn á elstu skuld og áfallna vexti. Umrædd gjöld væru þjónustugjöld, sem væru ekki hærri en kostnaður við að veita þjónustuna. Aðalkrafa málsins hljóðaði upp á 64,3 milljónir króna, auk dráttarvaxta frá mismunandi dagsetningum, að frádregnum innborgunum á tíu ára tímabili.
Gentle Giants gerir út frá Húsavík en þar má einnig finna Norðursiglingu. Hafnarsjóðurinn gerði árið 2012 samkomulag við síðarnefnda félagið um greiðslu farþegagjalda en ekkert slíkt samkomulag náðist við Gentle Giants. Stapp hefur staðið yfir síðastliðin ár og félagið meðal annars kvartað til Samkeppniseftirlitsins og umboðsmanns Alþingis vegna framgöngu sjóðsins. Var það niðurstaðan þar að innheimtuaðgerðirnar hefðu verið lögmætar en ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
Í niðurstöðu dómsins segir að í tölvupósti frá Hafnarsjóðnum, dagsettum í júlí 2018, hefði komið fram að kröfur á Gentle Giants, vegna áranna 2008, 2010 og 2015, næmu samtals 7,5 milljón. Sagði dómurinn að það yrði ekki skilið á annan veg en að búið væri að ráðstafa greiðslum til lúkningar á öðrum árum.
Aðalkrafan tvær og hálf síða
„Að mati dómsins er [Hafnarsjóðurinn] bundinn við þá ráðstöfun, enda samræmist það ekki meginreglum kröfuréttarins að kröfuhafi geti á síðari stigum endurráðstafa greiðslum til skuldara eftir eigin hentugleikum í því skyni að komast undan fyrningu,“ segir í dóminum. Var því ekki fallist á aðalkröfu sjóðsins.
Hvað varakröfu málsins varðaði – sú hljóðaði upp á 5,4 milljónir auk dráttarvaxta – þá var deilt um það hvort hún væri fyrnd einnig. Að mati dómsins var ekki fallist á það enda mátti rekja drátt á útgáfu reiknings til vanhalda á að Gentle Giants skilaði fullnægjandi upplýsingum til sjóðsins. Aftur á móti þá hafði sjóðurinn ekki lagt á nein farþegagjöld árið 2015 vegna forfalla og manneklu og uppgötvaðist það ekki fyrr en árið 2015.
„Vissulega hefði [sjóðurinn] með réttu átt að ganga fram af meiri festu við eftirrekstur eftir upplýsingum frá [félaginu]. Vanhöld á því verða hins vegar ekki talin slík að þau færi ábyrgðina, á því að fullnægjandi upplýsingar til álagningar gjaldanna lágu ekki fyrir fyrr en raun ber vitni, yfir á [sjóðinn],“ segir í dóminum. Ekki var fallist á skuldajafnaðarkröfu og ekki heldur að hið álagða gjald hefði byggt á ófullnægjandi grunni. Málskostnaður milli aðila féll niður.
Að endingu er vert að nefna að dómurinn er skemmtileg lesning fyrir áhugafólk um illa útlítandi dómkröfur. Aðalkrafa málsins taldi rúmlega tvær og hálfa síðu af nær endalausum upphæðum og upphagsdagsetningum vaxtaútreiknings. Má geta þess til gamans að hefði verið fallist á aðalkröfuna, svo að hún hefði verið tekin upp í dómsorð, þá hefði síðnafjöldi dómsins aukist um tíu prósent.