Gunnar Þór Gíslason, stjórnarformaður Ölmu leigufélags, hefur svarað fyrir gagnrýni á félagið í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir alrangt að Alma hafi hækkað húsaleigu til allra viðskiptavina sinna um 30% líkt og sumir fjölmiðlar hafa gefið í skyn.
Mikið hefur verið fjallað um Ölmu leigufélag eftir að öryrkja sem búið hefur í leiguíbúð í eigu félagsins barst tilkynning um að mánaðarleg leiga hennar myndi hækka úr 250 í 325 þúsund krónur.
Gunnar Þór segir að um sé að ræða eitt tilfelli en að þær verðhækkanir sem hluta af leigjendum Ölmu var tilkynnt um að kæmu til framkvæmda í upphafi næsta árs hafi að meðaltali verið innan við 10%.
„Leiguverð hlýtur alltaf að fylgja kostnaði og markaði. Rétt eins og kaupverð íbúða. Þegar grannt er skoðað er annað óhugsandi. Og hefur ekkert með græðgi að gera heldur eðlilega framlegð af því fjármagni sem bundið er í rekstrinum.“
Standa hefði mátt betur að tilkynningunni
Gunnar Þór segir að hina umtöluðu hækkun megi rekja til þess að Alma hafi verið að uppreikna og endurnýja samning sem upphaflega var stofnað til þegar leiguverð í miðbænum var lágt í miðjum Covid-faraldrinum. „Sá veruleiki er allt annar í dag.“
„Enda þótt breytingin hafi verið fullkomlega eðlileg aðlögun að gjörbreyttu markaðsverði í miðborginni skal, eftir nánari skoðun, fúslega viðurkennt að standa hefði mátt með nærgætnari hætti að tilkynningunni um nýtt leiguverð þegar hækkun var jafn mikil og raun bar vitni. Á því er beðist afsökunar,“ segir Gunnar Þór.
Hann bætir við að Alma hafi endurskoðað verkferla sína. Félagið muni héðan í frá setja hækkunum leiguverðs við endurnýjun samninga ákveðin mörk ásamt því að bæta upplýsingagjöf og auka sveigjanleika þeirra leigutaka sem vilja leita á önnur mið.
Erfiður línudans
Gunnar Þór segir að langstærsti hlutinn af leigumarkaði íbúðarhúsnæðis á Íslandi sé í höndum einstaklinga. Sérstakar skyldur við leigutaka séu oftast litlar sem engar og búseturéttur leigjandans afar takmarkaður.
Alma bjóði hins vegar upp á leigusamninga til allt að fimm ára á markaðskjörum og því geti leigutakar gengið að vísu að raunverð leigunnar hækki ekki á þeim tíma. Alma sé með vel innan við 5% markaðshlutdeild á leigumarkaðnum en félagið sé þó jafnt og þétt að fjölga leiguíbúðum sínum.
„Það er bjargföst sannfæring mín að vönduð fasteignafélög á leigumarkaði séu með fagmennsku sinni dýrmætur hluti af framtíðarlausnum í húsnæðismálum þjóðarinnar,“ segir Gunnar Þór.
„Samfélag okkar hefur byggt upp sterkt félagslegt kerfi til þess að tryggja þeim húsaskjól sem ekki ráða við ríkjandi markaðsaðstæður. Til staðar eru líka óhagnaðardrifin leigufélög sem njóta stuðnings ríkis og sveitarfélaga og geta því boðið húsnæði á lægra verði en ella. Alma starfar hins vegar á frjálsum markaði og þarf að vera á samkeppnishæfu verði samhliða því að grundvalla rekstur sinn á eðlilegri afkomu. Það hefur reynst erfiður línudans í því óstöðuga efnahagsumhverfi sem ríkt hefur á Íslandi um langt skeið.“