Breska ríkisstjórnin hyggst hækka lágmarkslaun í Bretlandi um tæplega 10% frá og með apríl 2024. Jafnframt mun almenna launagólfið ná til 21 og 22 ára gamalla einstaklinga í fyrsta sinn í stað 23 og eldri áður. BBC greinir frá.
Lágmarkslaun á vinnustund í Bretlandi eru í dag 10,42 pund, eða sem nemur um 1.830 krónum á gengi dagsins, fyrir verkafólk 23 ára og eldri og 10,18 pund hjá 21 og 22 ára gömlum einstaklingum. Áformað er að hækka lágmarkslaun upp í 11,44 pund eða rétt yfir 2.000 krónur.
Fyrir einstaklinga yfir 22 ára aldri á lágmarkslaunum samsvarar breytingin tæplega 1.800 punda launahækkun á ári fyrir fullt starf eða um 316 þúsund krónum.
Jeremy Hunt, fjármálaráðherra Bretlands, tilkynnti á flokksfundi Íhaldsflokksins í október að til stæði að hækka lágmarkslaun yfir 11 pund á hverja vinnustund. Hið nýkynnta launagólf samsvarar 9,8% hækkun hjá 23 ára og eldri einstaklingum og 12,4% hækkun hjá 21 og 22 ára gömlum einstaklingum.