Í nýrri grein á Vísi fjallar Ragnar Sigurður Kristjáns­son, hag­fræðingur á mál­efna­sviði Við­skiptaráðs, um hvernig áhrif 25 pró­senta hækkunar húsnæðis­bóta sem tók gildi í júní 2024 hafi að mestu runnið sitt skeið.

Hann bendir á að sam­kvæmt nýjustu mánaðar­skýrslu Húsnæðis- og mann­virkja­stofnunar sé hlut­fall húsnæðis­bóta af leigu­verði nú komið niður á sama stig og í júlí 2023.

Þannig hafi bóta­hækkunin bætt hag leigj­enda aðeins tíma­bundið, en hærra leigu­verð hafi tekið hækkuninni að fullu á innan við einu ári.

„Það á ekki að koma á óvart að hækkun húsnæðis­bóta og út­víkkun tekju- og eigna­viðmiða hafi ekki bætt hag leigj­enda til lengri tíma litið. Ef stuðningur er veittur til veru­legs hlut­falls kaup­enda á markaði þar sem fram­boð breytist lítið nema yfir lengri tíma, líkt og raunin er á leigu­markaði, mun stuðningurinn leiða til verðhækkana,“ skrifar Ragnar.

Húsnæðis­bætur hækkuðu um fjórðung sem hluti af að­gerða­pakka stjórn­valda við gerð kjara­samninga árið 2024. Kostnaður ríkisins vegna hækkunarinnar var metinn á 2,5 milljarða króna en heildar­kostnaður við húsnæðis­bætur í ár er áætlaður 11,5 milljarðar.

Árið 2024 nutu 21.000 heimili húsnæðis­bóta og voru tæp­lega 22.000 leigu­samningar skráðir hjá HMS í lok árs.

Ragnar vekur at­hygli á að tekju- og eigna­viðmið til að fá húsnæðis­bætur hafi verið rým­kuð, sem hafi fjölgað um­sóknum sem samþykktust eftir breytinguna.

Í júlí 2025 voru 150 um­sóknir samþykktar sem áður hafði verið hafnað vegna tekna eða eigna.

Alþjóða­gjald­eyris­sjóðurinn (AGS) hefur þó gagn­rýnt þessa stefnu og segir hag­kvæmara að beina stuðningi að tekjulægri hópum.

Um 20 pró­sent húsnæðis­bóta renni til heimila í efri tekju­tíundum, sem AGS telur ekki skil­virka leið til að styðja þá sem mest þurfa á að halda.

Ragnar segir að bóta­hækkanir leysi ekki undir­liggjandi vanda á húsnæðis­markaði.

Nauð­syn­legt sé að bæta stjórnsýslu, hraða skipu­lags­ferlum og ein­falda reglu­verk svo hægt sé að auka fram­boð húsnæðis og skapa raun­veru­legan stöðug­leika á leigu­markaði.