Í nýrri grein á Vísi fjallar Ragnar Sigurður Kristjánsson, hagfræðingur á málefnasviði Viðskiptaráðs, um hvernig áhrif 25 prósenta hækkunar húsnæðisbóta sem tók gildi í júní 2024 hafi að mestu runnið sitt skeið.
Hann bendir á að samkvæmt nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sé hlutfall húsnæðisbóta af leiguverði nú komið niður á sama stig og í júlí 2023.
Þannig hafi bótahækkunin bætt hag leigjenda aðeins tímabundið, en hærra leiguverð hafi tekið hækkuninni að fullu á innan við einu ári.
„Það á ekki að koma á óvart að hækkun húsnæðisbóta og útvíkkun tekju- og eignaviðmiða hafi ekki bætt hag leigjenda til lengri tíma litið. Ef stuðningur er veittur til verulegs hlutfalls kaupenda á markaði þar sem framboð breytist lítið nema yfir lengri tíma, líkt og raunin er á leigumarkaði, mun stuðningurinn leiða til verðhækkana,“ skrifar Ragnar.
Húsnæðisbætur hækkuðu um fjórðung sem hluti af aðgerðapakka stjórnvalda við gerð kjarasamninga árið 2024. Kostnaður ríkisins vegna hækkunarinnar var metinn á 2,5 milljarða króna en heildarkostnaður við húsnæðisbætur í ár er áætlaður 11,5 milljarðar.
Árið 2024 nutu 21.000 heimili húsnæðisbóta og voru tæplega 22.000 leigusamningar skráðir hjá HMS í lok árs.
Ragnar vekur athygli á að tekju- og eignaviðmið til að fá húsnæðisbætur hafi verið rýmkuð, sem hafi fjölgað umsóknum sem samþykktust eftir breytinguna.
Í júlí 2025 voru 150 umsóknir samþykktar sem áður hafði verið hafnað vegna tekna eða eigna.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur þó gagnrýnt þessa stefnu og segir hagkvæmara að beina stuðningi að tekjulægri hópum.
Um 20 prósent húsnæðisbóta renni til heimila í efri tekjutíundum, sem AGS telur ekki skilvirka leið til að styðja þá sem mest þurfa á að halda.
Ragnar segir að bótahækkanir leysi ekki undirliggjandi vanda á húsnæðismarkaði.
Nauðsynlegt sé að bæta stjórnsýslu, hraða skipulagsferlum og einfalda regluverk svo hægt sé að auka framboð húsnæðis og skapa raunverulegan stöðugleika á leigumarkaði.