Brim hf. skilaði 1,6 milljarða króna hagnaði á öðrum árs­fjórðungi 2025, saman­borið við 0,1 milljarð króna á sama tíma­bili í fyrra.

Rekstrar­tekjur námu 26,7 milljörðum króna, sem er lítil aukning frá 25,6 milljörðum árið áður. Rekstrar­hagnaður fyrir af­skriftir (EBITDA) var 3,9 milljarðar króna, eða 14,6% af tekjum, saman­borið við 2,7 milljarða króna og 11,3% EBITDA-hlut­fall árið 2024.

Guð­mundur Kristjáns­son, for­stjóri Brims, segir í yfir­lýsingu að af­koman hefði verið „ekki góð“ á fyrri helmingi ársins, þótt seinni hluti ársins hefði sögu­lega verið betri.

Hann bendir á að ávöxtun eigin fjár á öðrum fjórðungi hefði verið 2,6% og 4,4% á fyrri árs­helmingi, en 10,2% síðustu tólf mánuði.

„Nú hefur meiri­hluti alþingis­manna Ís­lendinga breytt lögum um veiðigjöld. Brim veit ekki í dag hvað veiðigjöldin munu vera á helstu fisk­tegundir á árinu 2026. Stofnun ríkisins, Skatturinn, mun birta þær tölur í lok nóvember á þessu ári og þá mun koma í ljós hversu mikið skattar eða veiðigjöld munu hækka á hverja fisk­tegund. Öllum er ljóst að ef veiðigjöld verða gríðar­lega há á ákveðnar fisk­tegundir á árinu 2026 þá mun Brim gera breytingar á sínum rekstri. Gríðar­legar skatta­hækkanir á fyrir­tæki í frum­fram­leiðslu í landinu hafa aldrei þótt skyn­sam­legar og sagan hefur kennt okkur hvað það þýðir; fækkun starfa og sam­dráttur í okkar þjóðfélagi,“ segir Guð­mundur

Að hans sögn blasir við að vegna 12% tak­markana á kvóta­eign sjávarúvegs­fyrir­tækja mun það neyða fyrir­tæki eins og Brim í breytingar.

„Við getum ekki stækkað nema fara inn á önnur svið þar sem reynsla okkar og sérþekking nýtist síður. Á sama tíma fara alþjóð­legir keppi­nautar fram úr okkur á mat­vælamörkuðum heimsins og inn­lendir keppi­nautar um fjár­magn þjóta fram úr okkur á fjár­málamörkuðum með mun betri af­komu og hærri arð­semi.

Það er von mín að í framtíðinni verði hægt að virkja alla þá ís­lensku orku sem farið hefur í deilur hér á landi um sjávarút­veg til að móta fyrir­sjáan­legt um­hverfi til lengri tíma fyrir sjávarút­vegs­fyrir­tæki þannig að þau geti skapað verðmæti og at­vinnu í landinu eins og þeim er ætlað í lögum um stjórn fisk­veiða.

Brim þekkir ekki annað en að vinna við þau skil­yrði og aðstæður sem náttúran, lög og er­lendir markaðir móta. Þannig er sagan og Brim mun halda áfram að skapa sína eigin framtíð eins og hingað til. Hver er sinnar gæfu smiður. Það breytist ekki.“

Heildar­eignir Brims námu 135,2 milljörðum króna í lok júní 2025, saman­borið við 142,0 milljarða við áramót.

Þar af voru fasta­fjár­munir 115,1 milljarður og veltu­fjár­munir 20,1 milljarður króna. Eigið fé var 67,8 milljarðar króna og eigin­fjár­hlut­fallið 50,1%, sem er ör­lítið hærra en 49,1% í lok árs 2024.

Heildar­skuldir voru 67,4 milljarðar króna, sem er 4,7 milljörðum minna en í árs­lok 2024. Nettó vaxta­berandi skuldir lækkuðu einnig og voru 48,2 milljarðar í lok júní.

Hand­bært fé frá rekstri á fyrri árs­helmingi nam 3,7 milljörðum króna saman­borið við 3,5 milljarða í fyrra. Fjár­festingar­hreyfingar voru jákvæðar um 0,8 milljarða eftir að hafa verið neikvæðar um 8,0 milljarða árið áður.

Fjár­mögnunar­hreyfingar voru hins vegar neikvæðar um 7,4 milljarða, aðal­lega vegna arð­greiðslna og vaxta­greiðslna.