Brim hf. skilaði 1,6 milljarða króna hagnaði á öðrum ársfjórðungi 2025, samanborið við 0,1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra.
Rekstrartekjur námu 26,7 milljörðum króna, sem er lítil aukning frá 25,6 milljörðum árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 3,9 milljarðar króna, eða 14,6% af tekjum, samanborið við 2,7 milljarða króna og 11,3% EBITDA-hlutfall árið 2024.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir í yfirlýsingu að afkoman hefði verið „ekki góð“ á fyrri helmingi ársins, þótt seinni hluti ársins hefði sögulega verið betri.
Hann bendir á að ávöxtun eigin fjár á öðrum fjórðungi hefði verið 2,6% og 4,4% á fyrri árshelmingi, en 10,2% síðustu tólf mánuði.
„Nú hefur meirihluti alþingismanna Íslendinga breytt lögum um veiðigjöld. Brim veit ekki í dag hvað veiðigjöldin munu vera á helstu fisktegundir á árinu 2026. Stofnun ríkisins, Skatturinn, mun birta þær tölur í lok nóvember á þessu ári og þá mun koma í ljós hversu mikið skattar eða veiðigjöld munu hækka á hverja fisktegund. Öllum er ljóst að ef veiðigjöld verða gríðarlega há á ákveðnar fisktegundir á árinu 2026 þá mun Brim gera breytingar á sínum rekstri. Gríðarlegar skattahækkanir á fyrirtæki í frumframleiðslu í landinu hafa aldrei þótt skynsamlegar og sagan hefur kennt okkur hvað það þýðir; fækkun starfa og samdráttur í okkar þjóðfélagi,“ segir Guðmundur
Að hans sögn blasir við að vegna 12% takmarkana á kvótaeign sjávarúvegsfyrirtækja mun það neyða fyrirtæki eins og Brim í breytingar.
„Við getum ekki stækkað nema fara inn á önnur svið þar sem reynsla okkar og sérþekking nýtist síður. Á sama tíma fara alþjóðlegir keppinautar fram úr okkur á matvælamörkuðum heimsins og innlendir keppinautar um fjármagn þjóta fram úr okkur á fjármálamörkuðum með mun betri afkomu og hærri arðsemi.
Það er von mín að í framtíðinni verði hægt að virkja alla þá íslensku orku sem farið hefur í deilur hér á landi um sjávarútveg til að móta fyrirsjáanlegt umhverfi til lengri tíma fyrir sjávarútvegsfyrirtæki þannig að þau geti skapað verðmæti og atvinnu í landinu eins og þeim er ætlað í lögum um stjórn fiskveiða.
Brim þekkir ekki annað en að vinna við þau skilyrði og aðstæður sem náttúran, lög og erlendir markaðir móta. Þannig er sagan og Brim mun halda áfram að skapa sína eigin framtíð eins og hingað til. Hver er sinnar gæfu smiður. Það breytist ekki.“
Heildareignir Brims námu 135,2 milljörðum króna í lok júní 2025, samanborið við 142,0 milljarða við áramót.
Þar af voru fastafjármunir 115,1 milljarður og veltufjármunir 20,1 milljarður króna. Eigið fé var 67,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 50,1%, sem er örlítið hærra en 49,1% í lok árs 2024.
Heildarskuldir voru 67,4 milljarðar króna, sem er 4,7 milljörðum minna en í árslok 2024. Nettó vaxtaberandi skuldir lækkuðu einnig og voru 48,2 milljarðar í lok júní.
Handbært fé frá rekstri á fyrri árshelmingi nam 3,7 milljörðum króna samanborið við 3,5 milljarða í fyrra. Fjárfestingarhreyfingar voru jákvæðar um 0,8 milljarða eftir að hafa verið neikvæðar um 8,0 milljarða árið áður.
Fjármögnunarhreyfingar voru hins vegar neikvæðar um 7,4 milljarða, aðallega vegna arðgreiðslna og vaxtagreiðslna.