Útgáfufélagið Torg hefur ákveðið að hætta útgáfu Fréttablaðsins ásamt ‏því að stöðva útsendingar sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar. „Allir ráðnir starfsmenn Torgs fengu greidd laun í dag,“ segir í yfirlýsingu á vef Fréttablaðsins. Hátt í hundrað manns missa vinnuna.

Fram kemur að rekstur DV.is og tengdra vefmiðla, hring­braut.is og Iceland Magazine muni halda áfram í félaginu Fjölmiðlatorgið ehf. Stjórn útgáfufélagsins segist hafa fulla trú á rekstri DV og tengdra miðla. Starfsemi þessara miðla verði haldið áfram „af fullum krafti“ auk þess sem upplýsingamiðlinum Iceland Magazine verður hleypt af stokkunum bráðlega.

„Vitan­lega er mjög dapur­leg niður­staða sem hér er kynnt. En stjórn­endur út­gáfunnar hafa sannar­lega leitað allra leiða til að finna henni við­unandi rekstrar­grund­völl til fram­tíðar, en án árangurs. Stjórn fé­lagsins harmar þessi mála­lok og þakkar þeim fjöl­mörgu starfs­mönnum sem lagt hafa dag við nótt að treysta stoðir rekstrarins undan­farið og óskar þeim vel­farnaðar,” segir í yfirl‎ýsingu stjórnar Torgs.

Horfast í augu við breytt rekstrarumhverfi

Stjórnin segir að á­stæður þess að rekstur Frétta­blaðsins gekk ekki upp séu marg­vís­legar. Að hluta sé um að ræða ó­við­ráðan­lega þróun þar sem út­gáfa fjöl­miðla á pappír „hefur látið hratt undan síga víða um heim, ekki síður en hér á landi.”

„Staf­rænir fjöl­miðlar eru smám saman að taka yfir. Þá er rekstrar­um­hverfi einka­rekinna miðla á Ís­landi ó­boð­legt. Ekki er um annað að ræða en að horfast í augu við þessar stað­reyndir. Allir ráðnir starfs­menn Torgs fengu greidd laun í dag.“

Stjórnin segir að Covid-faraldurinn hafi komið mjög illa við rekstur Fréttablaðsins, einkum vegna minni auglýsingasölu. Þá hafi stuðningur við einkarekinna fjölmiðla dugað skammt til. Þá hafi frídreifing Fréttablaðsins inn á heimili reynst of kostnaðarsöm.

„Stjórn­endur út­gáfunnar mátu það svo að um tíma­bundinn vanda væri að ræða sem þyrfti að komast í gegnum þar til eðli­legt á­stand kæmist á að nýju. Veiru­tíma­bilið reyndist hins vegar mun lengra en ætlað var og þegar því lauk í byrjun mars 2022, braust út stríð í Úkraínu sem hafði truflandi á­hrif víða um heim og leiddi til aukins kostnaðar tengdum mikil­vægum að­föngum.“

Töpuðu 850 milljónum árin 2020-2021

Líkt og fyrr segir hefur rekstur Torgs gengið erfiðlega undanfarin ár. Félagið tapaði 253 milljónum króna árið 2021 og nærri 600 milljónum árið 2020, samkvæmt síðasta birta ársreikningi. Eignir Torgs voru bókfærðar á 1,25 milljarða króna í árslok 2021 en þar á meðal var viðskiptavild upp á 398 milljónir. Eigið fé var um 337 milljónir.

Helgi Magnússon er aðaleigandi Torgs en hann ásamt fleiri aðilum keyptu reksturinn af 365 miðlum árið 2019.

Hofgarðar, fjárfestingarfélag Helga, stofnaði félagið Fjölmiðlatorg ehf. í september síðastliðnum. Helgi vildi á þeim tíma ekki tjá sig um hið nýstofnaða félag.