Ný gögn frá bandarískum flugmálayfirvöldum sýna að mikill skortur sé á bandarískum flugumferðastjórum. FAA segir að það auki áhættu í bandarískri lofthelgi en skorturinn hefur meðal annars leitt til seinkunar á flugferðum.

Stofnunin segir að nær allar flugumferðastöðvar þurfi á fleiri flugumferðastjórum til að viðhalda öryggi í lofthelgi Bandaríkjanna miðað við núverandi flugumferð.

Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna hefur lýst yfir áhyggjum af þessari þróun þar sem fjöldi flugfarþega í Bandaríkjunum hefur verið í sögulegu hámarki. Tæplega 1.000 færri flugumferðastjórar manna nú vaktina en gerðu fyrir rúmum áratug síðan og er búist við því að færri en 200 nýir flugumferðastjórar muni bætast við í stéttina næstu árin.

Í febrúar á þessu ári varð næstum því slys þegar mistök flugumferðastjóra varð til þess að fraktflugvél frá FedEx lenti næstum því ofan á farþegaþotu frá Southwest Airlines á flugvellinum í Austin í Texas. FedEx-flugvélin náði að gefa í á síðustu stundu og forðast árekstur.

Umsjónarmaður flugumferðastjórans náði ekki að fylgjast með sínu fólki þar sem hann þurfti í staðinn að stjórna umferðinni á flugbrautum vallarins. Flugmálayfirvöld benda á atvikið sem skýrt dæmi um þá hættu sem skortur á flugumferðastjórum geti haft í för með sér.

Verkalýðsfélög og stjórnmálamenn hafa einnig lýst yfir áhyggjum af þessum skorti og segja að þeir sem standa vaktirnar geti orðið fyrir þreytu og truflunum.

„Hvað gerist með yfirvinnu? Það endar með því að það leiðir til þreytu og mistaka, sem er einmitt það sem við sjáum með þessari rannsókn. Þetta kemur allt niður á skorti á starfsfólki,“ segir Jennifer Homendy, formaður NTSB í vitnisburði til bandaríska þingsins í nóvember.