Eimskip skilaði 4,5 milljóna evra hagnaði, eða sem nemur 655 milljónum króna, á öðrum ársfjórðungi. Það samsvarar um 43% samdrætti frá sama tímabili í fyrra þegar félagið hagnaðist um 7,9 milljónir evra.
„Afkoma annars ársfjórðungs var ágæt og einkenndist af auknu magni í gámasiglingakerfinu, miklum umsvifum í annarri flutningstengdri starfsemi en veruleg lækkun á alþjóðlegum flutningsverðum hafði áhrif á afkomu í alþjóðlegri flutningsmiðlun félagsins,“ segir í uppgjörstilkynningu Eimskips.
Tekjur námu 201,1 milljónum evra, eða um 29,2 milljörðum króna, og drógust saman um 2,9% frá sama tímabili í fyrra.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) dróst saman um 9,8% milli ára og námu 21,2 milljónum evra eða um 3,1 milljarði króna. EBITDA hlutfall var 10,5% samanborið við 11,3% á sama fjórðungi fyrra árs.
Magn í siglingakerfi Eimskips jókst um 7,9% á fjórðungnum. Félagið segir hins vegar að lægri meðalverð hafi haft þau áhrif að tekjuvöxtur var lægri en magnaukning.
Í alþjóðlegri flutningsmiðlun félagsins hafi magnið minnkað lítillega. Þá hafi fjórðungurinn verið litaður af mikilli lækkun á alþjóðlegum flutningsverðum og óvissu vegna samningaviðræðna um tolla á inn- og útflutning Bandaríkjanna sem hafði áhrif á afkomu þessarar starfsemi félagsins.
„Við erum nokkuð ánægð með afkomu annars ársfjórðungs þá sérstaklega ef miðað við þá óvissu og sviptingar á alþjóðamörkuðum sem einkenndu fjórðunginn,“ segir Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.
„Heilt yfir erum við nokkuð bjartsýn fyrir komandi mánuðum enda sjáum við venjubundnar árstíðarsveiflur í rekstrinum okkar þar sem annar og þriðji fjórðungur eru að jafnaði þeir umsvifamestu í starfseminni.“