Orku­veita Reykja­víkur (OR) skilaði 4,9 milljarða króna hagnaði af rekstri á fyrri hluta ársins 2025, saman­borið við 4,3 milljarða á sama tíma í fyrra.

Þrátt fyrir jákvæðan rekstur var heildar­af­koma sam­stæðunnar hins vegar neikvæð um 4 milljarða króna, á meðan hún var jákvæð um 5,8 milljarða á fyrri hluta árs 2024.

Af árs­reikningi félagsins að dæma er helsta skýringin á þessari neikvæðu heildar­af­komu óhagstæðar gengis­breytingar sem höfðu neikvæð áhrif á fjár­magns­tekjur og -gjöld.

OR rekur hluta starf­semi í dollurum og evrum, meðal annars Orku náttúrunnar og Car­b­fix, og gengis­sveiflur fara beint í heildar­af­komuna en neikvæðu áhrifin voru 8,9 milljarðar í heildina.

Heildar­eignir stóðu í 508,4 milljörðum króna í lok tíma­bilsins saman­borið við 509,9 milljarða í árs­lok 2024.

Eigið fé lækkaði í 255,3 milljarða úr 265,7 milljörðum, meðal annars vegna neikvæðrar heildar­af­komu og arð­greiðslna.

Vaxta­berandi skuldir voru bók­færðar um 208 milljarða króna og vaxta­gjöld og verðbætur námu 8,1 milljarði á fyrri hluta ársins.

Háir vextir af lánum til fjárfestinga setja áfram mark sitt á afkomu samstæðunnar en viðræður standa yfir um hagstæða fjármögnun þeirra fjölbreyttu grænu verkefna sem Orkuveitan hefur á prjónunum,segir í tilkynningu frá OR.

Lausa­fjár­staða var sterk með 20,6 milljarða í hand­bæru fé, 14,4 milljarða í bundnum innstæðum og verðbréfum og 15,2 milljarða í ónotuðum lána­línum, eða sam­tals 50,2 milljarða króna.

Tekjur á fyrri helmingi ársins skiptust þannig: raf­magn 14,0 milljarðar, heitt vatn 10,2 milljarðar, kalt vatn 4,4 milljarðar, fráveita 2,05 milljarðar og aðrar tekjur 3,7 milljarðar króna.

Í fréttatilkynningu frá OR segir að veigamesta skýring samdráttar tekna á 2. ársfjórðungi eru minni tekjur hitaveitunnar, sem er umfangsmesti veiturekstur innan samstæðunnar.

Nauðsynlegt er þó að halda áfram að afla aukins forða svo hitaveitan geti mætt vaxandi álagstoppum

Aðal­fundur samþykkti 6,5 milljarða króna arð, þar af voru 3,25 milljarðar greiddir í júní og aðrir 3,25 milljarðar færðir sem skammtíma­skuld í lok júní. Reykjavíkurborg á 93,5% hlut í OR á móti 5,5% hlut Akraneskaupstaðar og 0,9% hlut Borgarbyggðar.

Þá endur­greiddi Lands­net 450 milljónir króna í afl­gjald eftir úr­skurði, sem lækkaði flutnings­kostnað á árinu. OR og Norðurál gerðu einnig nýjan raf­orkusölu­samning til allt að fimm ára í apríl 2025 og drógu til baka mál fyrir gerðar­dómi.

Ljós­leiðarinn er að fullu í eigu OR og rekur sam­keppnis­rekstur á fjar­skipta­markaði.

Tekjur færast við af­hendingu þjónustu og starf­semin fellur undir „Önnur starf­semi“ ásamt móðurfélaginu og Car­b­fix.

Car­b­fix-verk­efnin eru að fullu í eigu OR í gegnum Eignar­halds­félag Car­b­fix ohf., Car­b­fix hf. og Coda Terminal hf.

Verk­efnin snúast um kol­efnis­föngun og förgun og fjár­festingar í „Önnur starf­semi“ námu rúmum þremur milljörðum króna á fyrri hluta ársins.

Veitur og orku­sala/fram­leiðsla skiluðu jákvæðri EBIT-af­komu en „Önnur starf­semi“, þar á meðal Ljós­leiðarinn og Car­b­fix, var með neikvætt EBIT upp á 0,9 milljarða króna saman­borið við neikvæða af­komu upp á 0,77 milljarða á sama tíma­bili í fyrra.

Í uppgjörinu segir Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri að það sé góður gangur í þeim grænu uppbyggingarverkefnum sem Orkuveitan stendur fyrir.

Á fyrri hluta þessa árs var það stóra skref stigið að nú er starfsemi Hellisheiðarvirkjunar Orku náttúrunnar nánast kolefnissporlaus og skilar það eitt og sér um 10% af markmiðum Íslands í loftslagsmálum. Binding Carbfix við virkjunina er ekki bara á koldíoxíði frá heldur líka brennisteinsvetni sem sparar rekstrinum stórar fjárhæðir. Þá eru hafnar rannsóknir á hugsanlegri nýtingu vindorku við Dyraveg á Mosfellsheiði, frekari jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og kolefnisbindingu við Þorlákshöfn í Ölfusi.

Það er gott að búa að stöndugum og stöðugum rekstri þegar ráðist er í verkefni af þessu tagi enda eru fjárfestingar í þróun og nýsköpun áhættusamar í eðli sínu; væri niðurstaðan vituð þyrfti ekkert að rannsaka.

Á sama tíma erum við að efla og treysta veitukerfin öll. Uppbygging er talsverð á starfssvæðum okkar. Oft er hún innan um eldri byggð sem er hagstæðara í heildarsamhenginu en er oft dýrt fyrir Veitur.

Við erum sátt við afkomuna á fyrri helmingi ársins og höldum ótrauð áfram að vera aflvaki sjálfbærrar framtíðar.