Hampiðjan hagnaðist um 2,3 milljónir evra, eða um 338 milljónir króna, á öðrum ársfjórðungi, sem samsvarar 57% lækkun frá sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður félagsins jókst hins vegar um 10% milli ára.
Félagið birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Tekjur Hampiðjunnar á öðrum fjórðungi námu 95,9 milljónum evra, eða um13,9 milljörðum króna, og jukust um 14,7% milli ára. Söluaukning á fyrri árshelmingi var um 16,8%.
Fram kemur að ef indverska félagið Kohinoor og norska félagið Fiizk Protection, sem voru ekki inn í samstæðunni á öðrum fjórðungi 2024, séu tekin úr samanburðinum þá var söluaukning þeirra félaga sem fyrir voru í samstæðunni um 2,4% á fyrri hluta ársins.
„Það er jákvætt því ýmis neikvæð áhrif vegna innrásarstríðsins í Úkraínu hafa haft áhrif á veiðarfæramarkaði víða um heim. Sérstaklega í Bandaríkjunum vegna lágs fiskverðs sem kemur til vegna alaskaufsa sem Rússar veiða og finnur sér leið inn á Bandaríkjamarkað gegnum Kína en þó eru sölutölur okkar í Bandaríkjunum að vaxa á ný eftir daufa sölumánuði í byrjun ársins,“ segir Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar.
EBITDA-hagnaður félagsins jókst um 13,7% og nam 12,9 milljónum evra. Rekstrarhagnaður (EBIT) nam 9,1 milljón evra, eða um 1,3 milljörðum króna. Gengistap vegna veikingar dollars, minnkandi vaxtatekjur og liður sem tiltekur aflagða starfsemi leiddu hins vegar til þess að hagnaður eftir skatta dróst saman.
Þá var heildarafkoma félagsins neikvæð um 3,6 milljónir evra eða um hálfan milljarð króna vegna töluverðs neikvæðs þýðingarmunar af eigin fé dótturfélaga.
Hjörtur segir að sem fyrr sé unnið ákaft að hagræðingaraðgerðum í kjölfar kaupanna á Kohinoor og nýtingu samlegðartækifæra, en sú vinna gangi vel. Árangurinn sé farinn að birtast í grunnrekstrartölum þessa árs og hann komi væntanlega til með að aukast eftir því sem líður á árið og síðan í meira mæli á næsta ári. Mest af hagræðingunni ætti að hafa náðst á árinu 2027.