Fasteignafélagið Reginn hagnaðist um 6,1 milljarð á fyrri árshelmingi í samanburði við 3,7 milljarða á tímabilinu í fyrra. Mun það vera 66% hagnaðaraukning á milli ára.
Rekstrartekjur Regins á fyrstu sex mánuðum ársins námu 6,7 milljörðum króna. Leigutekjur félagsins hækka um 16,5% frá sama tímabili í fyrra. sem jafngildir um 7% raunaukningu.
„Nokkrar breytingar hafa orðið á eignasafninu á milli ára sem hafa áhrif á leigutekjur. Í kjölfar straumlínulögunar eignasafnsins hefur tekjuberandi fermetrum og eignum fækkað á milli ára,“ segir í uppgjöri félagsins.
Þá segir Reginn að yfirtökutilboð Regins í Eik fasteignafélag hf. sé enn í gildi og unnið sé að samþykkt þess. Samrunaskrá hefur verið skilað inn til Samkeppniseftirlitsins og frestur hluthafa til að ganga að tilboðinu hefur verið framlengdur til 16. október.
Hluthafar Eik hlynntir yfirtöku
„Í fyrri tilkynningum hefur komið fram að meirihluti hluthafa Eikar hafi þegar lýst yfir stuðningi við áformin á grundvelli markaðsþreifinga. Í kjölfarið hefur samtal átt sér stað við tiltekna hluthafa Eikar til að kynna áformin nánar og hlusta eftir sjónarmiðum um þær stefnuáherslur sem Reginn hefur kynnt í tengslum við tilboðið. Þess er vænst að með ítarlegri kynningu á uppgjöri Regins og nánari lýsingu á stefnuáherslum sameinaðs félags náist breið sátt um tilboðið meðal hluthafa Eikar,“ segir í uppgjörinu.
EBITDA Regins nam 4,4 milljörðum króna og hækkar um 14% frá því í fyrra. Bókfærðar fjárfestingaeignir voru 186 milljarðar eftir 10 milljarða króna jákvæða matsbreytingu.
„Virði fjárfestingareigna félagsins að frádregnum leigueignum er metið á 182.174 m. kr. Safnið samanstendur nú af 101 fasteign sem alls eru um 374 þúsund fermetrar. Útleiguhlutfall er um 97,5% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi. Heildarmatsbreyting tímabilsins nam 10.093 m.kr. Eignasafn félagsins hefur minnkað, bæði í fjölda eigna sem og fermetrum sem nemur um 2%, á sama tíma og leigutekjur hækka um 16,5%” segir í uppgjörinu.
Handbært fé frá rekstri nam 2,6 milljörðum króna og var handbært fé 3,6 milljarðar í lok tímabils.
Vaxtaberandi skuldir Regins eru 115,5 milljarðar króna í lok tímabils og hækkuðu um 6,4 ma. kr. frá áramótum. Skuldahlutfall var 63,4% og eiginfjárhlutfall 30,7% í lok tímabils.
Hagnaður á hlut fyrir tímabilið nam 3,36 kr. en var 2,02 kr. á sama tíma í fyrra.
Tekjuspá hækkuð fyrir árið
„Reksturinn gengur vel og er yfir áætlun á fyrstu sex mánuðum ársins og við sjáum fram á að hann gangi áfram vel á seinni helmingi ársins. Í ljósi þess er tekjuspá hækkuð fyrir árið í heild um 200 milljónir króna og jafnframt er gert ráð fyrir 200 milljóna króna hærri EBITDA á árinu,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson forstjóri Regins í uppgjörinu.
„Það er mitt mat að sú fjárfesting sem átt hefur sér stað í lykilkjörnum Regins sé að skila sér í sterku uppgjöri. Þá er komið að vatnaskilum í umbreytingu fasteignasafns Regins eftir tímabil mikilla fjárfestinga sem félagið uppsker nú í formi aukinnar eftirspurnar og raunaukningar leigutekna. Vaxandi umsvif í ferðaþjónustu höfðu jákvæð áhrif á rekstur félagsins á fyrri helmingi ársins, góður gangur var í hagkerfinu og vanskil í lágmarki. Þá er tekjugrunnur Regins afar sterkur en 45% af leigutekjum koma nú frá opinberum aðilum og skráðum fyrirtækjum sem felur í sér lága mótaðilaáhættu fyrir félagið,“ segir Halldór Benjamín.
skilyrði um lágmarks samþykki hluthafa Eikar því hækkað í 75%.
„Nýir leigutakar eru meðal annars Landsvirkjun en unnið er að standsetningu og afhendingu á 4.500 m2 skrifstofurými í turninum Höfðatorgi fyrir höfuðstöðvar fyrirtækisins. Í kjölfarið verður turninn í 100% útleigu. Áþekka sögu er að segja af Hafnartorgi en leigutekjur af svæðinu hafa tvöfaldast frá sama tímabili í fyrra.
Við höfum á sama tíma haldið áfram að straumlínulaga eignasafnið og það er ánægjulegt að leigutekjur hækki um 16,5% á sama tíma og við fækkum fermetrum í eignasafninu um 2%.
Áfram verður leitast við að ná fram frekari hagræðingu og auka slagkraft félagsins. Þann 4. júlí samþykkti hluthafafundur Regins mótatkvæðalaust heimild til stjórnar til hækkunar hlutafjár til að efna uppgjör á valfrjálsu yfirtökutilboði í Eik. Gildistími valfrjálsa yfirtökutilboðsins var til 18. september 2023. Reginn hefur þegar skilað inn samrunaskrá til Samkeppniseftirlitsins og Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) hefur samþykkt umsókn Regins um framlengingu tilboðsfrests til kl. 13: 00 þann 16. október 2023. Stjórn Regins væntir þess að ljúka megi viðskiptunum innan þeirra tímamarka.
Á hluthafafundi Regins var áréttað að áformin sem í tilboðinu felast byggjast á því að breið samstaða náist um málið og var skilyrði um lágmarks samþykki hluthafa Eikar því hækkað í 75%. Í fyrri tilkynningum hefur komið fram að meirihluti hluthafa Eikar hefur þegar lýst yfir stuðningi við áformin á grundvelli markaðsþreifinga. Í kjölfarið hefur samtal átt sér stað við tiltekna hluthafa Eikar til að kynna áformin nánar og hlusta eftir sjónarmiðum um þær stefnuáherslur sem Reginn hefur kynnt í tengslum við tilboðið. Við væntum þess að með ítarlegri kynningu á uppgjöri Regins og nánari stefnuáherslum sameinaðs félags náist breið sátt um tilboðið meðal hluthafa Eikar,“ segir Halldór Benjamín.