Hagvöxtur í Kína hefur ekki verið minni í fleiri áratugi en þjóðarframleiðsla jókst um 5,2% á síðasta ársfjórðungi 2023 samkvæmt opinberum gögnum sem gefin voru út í dag.

Fyrir utan þau þrjú ár sem Kína skellti í lás meðan á heimsfaraldri stóð hefur hagvöxtur í landinu ekki verið lægri síðan 1990, árið eftir uppreisnirnar á Torgi hins himneska friðar.

Hagvöxturinn var hins vegar aðeins meiri en opinber markmið ríkisstjórnarinnar sem spáði því að efnahagurinn myndi vaxa um 5%. Árið 2022 óx hagkerfi Kína um 3% og 2020 var hagvöxtur í 2,2% lægð.

Það gæti reynst erfitt að viðhalda þeim vexti sem Kína lauk árinu með í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur verið hikandi við að fjárfesta en skuldastaða sveitarfélaga í landinu er mjög slæm. Alþjóðlegir fjárfestingabankar spá því að hagvöxtur á þessu ári í Kína verði milli 4% til 4,9%. Búist er við því að kínversk stjórnvöld muni kynna formlegt vaxtarmarkmið á árlegum þingfundi sem fer fram í mars.

Eftirspurn eftir vörum frá Kína hefur farið minnkandi frá umheiminum sem hefur einnig verið að glíma við verðbólgu og vaxtahækkanir. Kínversk heimili hafa heldur ekki náð sér eftir harðar samkomutakmarkanir sem stóðu yfir í nokkur ár og fengu heldur ekki beinan fjárhagslegan stuðning frá stjórnvöldum. Einkafyrirtæki hafa þar að auki dregið úr fjárfestingum í Kína.

Næstu árin munu reynast kínverska efnahagnum erfið en íbúafjöldi þjóðarinnar hefur verið að eldast hratt samhliða rýrnandi samskiptum við Vesturlönd og sínum stærsta viðskiptavin, Bandaríkin.

Opinberar tölur sýna að íbúafjöldi Kína fækkaði um 2,08 milljónir á síðasta ári niður í 1,410 milljarða en árið 2022 var fyrsta árið sem íbúum landsins fækkaði í fleiri áratugi. Hagfræðingar hafa nú áhyggjur af því að Kína gæti lent í vítahring þar sem lækkandi verð og minni eftirspurn munu hrjá landið á svipaðan hátt og Japan lenti í á tíunda áratugnum.

Stjórnvöld hafa hingað til reynt að lækka stýrivexti og húsnæðiskostnað fyrir kaupendur og hvatt banka til að lána meira til fasteignafyrirtækja. Þessar ráðstafanir hafa þó gert lítið til að snúa við hagkerfinu. Ríkisstjórnin sagði seinasta haust að hún myndi gefa út 137 milljarða dala í ríkisskuldir en hagfræðingar segja að það sé ekki nóg til að breyta stöðunni.

Kínversk hlutabréf lækkuðu einnig töluvert eftir að tölurnar voru birtar en CSI 300 vísitalan lækkaði um 1,4% og stefnir á mestu lægð í fimm ár. Hang Seng vísitalan í Hong Kong, sem inniheldur hlutabréf margra kínverskra fyrirtækja, lækkaði þá um 3,7%.