Kínversk stjórnvöld hafa blásið á orðróma um að þau muni slaka á stefnu sinni um harðar samkomutakmarkanir til að halda Covid-smitum í lágmarki. Búist er við að skilaboðin muni leiða til mikilla sveiflna á hlutabréfamörkuðum, að því er kemur fram í frétt Financial Times.

Hlutabréf í Kína hækkuðu töluvert í síðustu viku eftir orðróma um að stjórnvöld í Beijing væru að íhuga að slaka á farsóttarstefnu sinni. Hang Seng hlutabréfavísitalan í Hong Kong átti sína bestu viku í meira en sjö ár. Hækkanir í Shanghai-kauphöllinni voru einnig þær mestu á einni viku frá því í júlí 2020.

Á blaðamannafundi á laugardaginn ítrekaði heilbrigðisnefnd kínverska ríkisins (NHC) stefnufestu sína um að útrýma Covid-veirunni og varaði við að baráttan við faraldurinn gæti orðið „enn alvarlegri og flóknari“ vegna flensutíðar.

„Reynslan hefur sýnt að stefna okkar um forvarnir og stjórn á faraldrinum […] er hárrétt, og slíkar aðgerðir hafa reynst þær hagkvæmustu og skilvirkustu,“ sagði Hu Xiang, nefndarmaður NHC.

Staðfest dagleg smit í Kína voru 4.420 talsins á laugardaginn og hafa ekki verið meiri á síðustu sex mánuðum.