Matthías Tryggvi Haraldsson hefur verið ráðinn sem texta- og hugmyndasmiður á auglýsingastofunni Brandenburg. Matthías er meðlimur hljómsveitarinnar Hatara sem gerði garðinn frægan í Eurovision árið 2019.

Matthías gekk í Listaháskóla Íslands og hefur starfað sem listamaður á ýmsum sviðum. Matthías var valinn leikskáld Borgarleikhússins í fyrra og fer verk hans á fjalir leikhússins á næstu misserum.

„Við erum að sjálfsögðu himinlifandi að fá Matta til liðs við okkur. Og gott betur. Við höfum jú alltaf haft ofurtrú á góðum hugmyndum og því sem þær geta áorkað — og það að honum hafi dottið í hug ljá Brandenburg krafta sína og heilastarfsemi er augljóslega ein besta hugmynd þessa árs,“ er haft eftir Braga Valdimar Skúlasyni, texta- og hugmyndasmiði á Brandenburg og einum eigenda stofunnar.

Hjá Brandenburg starfa tæplega 40 sérfræðingar á sviði vörumerkjaráðgjafar, hönnunar, hugmyndavinnu og textagerðar auk þess að sjá um birtingar, kaup og ráðgjöf gegnum snjallbirtingafyrirtækið Datera.