Að þéna yfir 100 þúsund pund á ári í Bretlandi, áður tákn um velgengni, hefur að margra mati breyst í fjárhagslega gildru.
Nýjar tölur sýna að þeir sem fara yfir þessi mörk greiða í reynd mun hærri jaðarskatta en opinber skatthlutföll gefa til kynna og margir sjá litla ástæðu til að vinna meira eða þiggja launahækkanir.
Ástæðan er sú að persónuafslátturinn, sem nemur 12.570 pundum, skerðist um eitt pund fyrir hverja tvo pund sem einstaklingur þénar umfram 100 þúsund pund og fellur alveg niður við 125.140 pund.
Þannig fer jaðarskatturinn í allt að 60% á bilinu 100–125 þúsund pund, þar sem fólk heldur aðeins eftir 400 pundum af hverjum þúsund pundum sem það vinnur sér inn. Þegar 2% tryggingagjald bætist við lækkar hlutfallið enn frekar.
Fyrir foreldra er staðan sérstaklega óhagstæð.
Við 100 þúsund punda tekjumörkin fellur niður rétturinn til 30 klukkustunda ókeypis leikskólavistar á viku og skattfrjálsra styrkja vegna barnagæslu, sem geta numið allt að 2.000 pundum á barn á ári.
Samkvæmt útreikningum AJ Bell getur 2.000 punda launahækkun leitt til alls 27.880 punda skerðingar í formi skatta og tapaðra styrkja.
Til að ná aftur sömu ráðstöfunartekjum og áður þyrftu launin að hækka úr 99 þúsund pundum í um 156 þúsund pund.
Samkvæmt bresku skattstofunni HMRC munu 725 þúsund Bretar lenda í 60% skattagildrunni í ár, samanborið við 300 þúsund árið 2018.
Spár gera ráð fyrir að fjöldinn verði orðinn 850 þúsund árið 2028–2029, þar sem laun hækka en skatthlutföll haldast óbreytt í fyrirbæri sem kallast „fiscal drag“. Alls er áætlað að 2,25 milljónir launþega muni þá missa hluta eða allan persónuafslátt sinn.
Sérfræðingar segja að skattgildran hvetji marga tekjuháa starfsmenn til að endurskoða vinnumagn sitt.
Sumir neita launahækkunum, fresta bónusgreiðslum eða minnka starfshlutfall til að halda tekjum undir 100 þúsund pundum. Aðrir nýta aukið svigrúm til lífeyrissparnaðar eða styrkja til góðgerðarmála til að lækka skattstofninn.
„Þegar skattyfirvöld taka 60 peninga af hverju pundi sem þénast er umfram 100 þúsund, minnkar hvati fólks til að leggja sig meira fram,“ segir John Clamp hjá Bowmore Financial Planning.
Vandinn á rætur sínar að rekja til ákvörðunar Gordon Brown árið 2010 sem ákvað láta persónuafslátt hverfa í stigum, eftir efnahagshrunið.
Skattleysismörkin hafa ekki hækkað síðan. Hefðu þau fylgt verðbólgu væru þau nú 154.800 pund, samkvæmt NFU Mutual.
Ríkisstjórnir hafa kosið að frysta skatthlutföll frekar en að hækka skattprósentur beint, aðferð sem oft er kölluð „skattlagning í felum“.
Ný ríkisstjórn hefur þó lofað að láta mörkin hækka með verðbólgu árið 2028, en efnahagsleg óvissa gæti sett strik í reikninginn.