Heineken hefur gefið út afkomuviðvörun þar sem fram kemur að fyrirtækið hafi tapað tæpum 300 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi samanborið við eins milljarðs evra hagnað á sama tímabili árið áður. Þar spilar inn í að bjórframleiðandinn niðurfærði virði eigna um 550 milljónir evra vegna heimsfaraldursins. Financial Times segir frá .

Nettó tekjur féllu um 16,4% á fyrstu sex mánuðum ársins á meðan rekstrarhagnaður lækkaði um 52,5%. Hlutabréf hollenska félagsins hafa lækkað um tæp 3% í morgun eftir tilkynninguna.

Í tilkynningu Heineken, sem framleiðir einnig Amstel, Tiger og Moretti, segir að sala hafi náð lágmarki í apríl en svo tekið við sér smám saman þegar samkomubönnum liðkaði og viðskiptavinir fóru að fylla á birgðir á ný.

Bjórsala minnkaði mest í Ameríkunum, Afríku, Miðausturlöndum og Austur-Evrópu. Langmesti samdrátturinn í sölu var í Mexíkó og Suður-Afríku þar sem sala áfengis var bönnuð vegna faraldursins.