Þýska fyrirtækið Gebr. Heinemann, sem nú rekur fríhafnarverslanir á Keflavíkurflugvelli í gegnum íslenskt einkahlutafélag, var dæmt fyrir verðsamráð í Ísrael árið 2022.
Viðskiptablaðið sendi opinbera hlutafélaginu Isavia, sem rekur flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, fyrirspurn um hvort Isavia hafi verið kunnugt um dóminn. Samkvæmt svari upplýsingafulltrúa Isava var félaginu ókunnugt um hann.
Í fyrirspurn blaðsins var einnig spurt um hvort starfsmenn Isavia eða Fríhafnarinnar hafi farið í boðsferðir á vegum Heinemann í aðdraganda útboðsins. Í svarinu kemur fram að svo hafi ekki verið.
Samráð á Ben‑Gurion flugvellinum
Dómstóll í Tel Aviv í Ísrael staðfesti úrskurð alþjóðlegs gerðardóms (ICC) frá árinu 2021 sem komst að þeirri niðurstöðu að Heinemann og bandaríska fyrirtækið James Richardson hefðu átt í samráði í tengslum við útboð á tollfrjálsum rekstri á Ben‑Gurion flugvellinum í Tel Aviv árið 2013.

Dómurinn taldi sannað að fyrirtækin hefðu komið sér saman um að James Richardson myndi bjóða hærra verð í útboðinu en Heinemann og samstarfsfyrirtæki þess, Alfa Duty Free.
Forsvarsmenn Alfa Duty Free vissu ekki af samráðinu og fór félagið í mál við Heinemann fyrir að hafa komið í veg fyrir að fyrirtækið fengi hlutdeild í rekstrinum samkvæmt samstarfssamningi.
Heinemann var dæmt til að greiða rúmlega 25,5 milljónir Bandaríkjadala, eða 3,4 milljarða króna, í skaðabætur til Alfa Duty Free.
Tveimur árum síðar keypti Heinemann rekstrarfélag fríhafnarinnar á Ben‑Gurion flugvelli af samráðsfyrirtækinu James Richardsson.