Helgi Júlíusson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs Bláa Lónsins og hefur þegar hafið störf. Hann tekur við stöðunni af Þóreyju G. Guðmundsdóttur sem lét af störfum í haust eftir að hafa gengt starfinu frá árinu 2013 en hún hefur verið ráðin fjármálastjóri VAXA.

Helgi þekkir vel til íslenskrar ferðaþjónustu en hann hefur starfað áður sem framkvæmdastjóri framtakssjóðsins Icelandic Tourism Fund (ITF) og sem aðstoðarforstjóri Arctic Adventures. Þar áður starfaði hann m.a. sem fjármálastjóri og síðar sem forstjóri Pennans.

„Að mínu mati eru gríðarlega spennandi tímar fram undan hjá Bláa Lóninu og ég hlakka til að taka þátt í viðspyrnunni með einvala hópi samstarfsfólks,“  segir Helgi í samtali við Viðskiptablaðið. „Við munum koma sterkari til baka sem áfangastaður nú þegar sér fyrir endann á covid og ég hef fulla trú á því að ferðaþjónustan muni rísa hratt á lappirnar.“

Helgi er með MBA gráðu frá Cranfield School of Management og með M.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá DTU í Kaupmannahöfn.