Herdís Dröfn Fjeldsted, forstjóri Sýnar, keypti hlutabréf í fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækinu fyrir 10,2 milljónir króna í gær í gegnum félagið Krummi Kapital ehf. sem hún á ásamt eiginmanni sínum Sævari Péturssyni.
Alls keypti Herdís 400 þúsund hluti á genginu 25,4 krónur á hlut, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.
Um er að ræða önnur kaup Herdísar í Sýn frá því að hún tók við forstjórastöðunni hjá fyrirtækinu í janúar 2024. Samtals á hún 750 þúsund hluti í Sýn í dag sem eru um 18,2 milljónir króna að markaðsvirði miðað við dagslokagengi félagsins í gær.
Þess má geta að forstjóra og framkvæmdastjórn Sýnar var veittur kaupréttur í nóvember 2024, þar sem grunnverðið var 30,46 krónur á hlut og hækkar árlega um 7,5%. Herdísi var veittur kaupréttur að samtals 2.000.000 hlutum.
Kaup Herdísar í gær fylgir í kjölfar þess að Sýn birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung á þriðjudaginn síðasta. Áfram er taprekstur hjá Sýn en Herdís sagði heildarniðustöðu á fyrri árshelmingi jákvæða en reksturinn sé í takt við áætlanir og kjarnatekjur sýni vöxt.
Þá tilkynnti Sýn um samkomulag við Nova í síðustu viku um helstu atriði fyrirhugaðra samninga um framsal farnetsdreifikerfa félaganna til Sendafélagsins sem er í sameiginlegri eigu félaganna.
Herdís var ráðin forstjóri Sýnar í janúar 2024. Hún starfaði áður sem forstjóri Valitor og þar áður sem framkvæmdastjóri Framtakssjóðs íslands. Þá hefur hún setið í stjórn nokkurra félaga, þar á meðal Arion banka, Icelandair Group, Icelandic Group, Promens og Eyris Venture Management.