Í nýjumpistli í Morgunblaðinu gagnrýnir Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, stjórnvöld fyrir að fullyrða að þau hafi „umbylt ríkisfjármálum á átta mánuðum“ þegar staðreyndirnar bendi til annars.
Hún segir stjórnarliða hafa hrósað sér af sölu Íslandsbanka, úrlausn mála ÍL-sjóðs og fyrirhuguðum hallalausum fjárlögum árið 2027 – þrátt fyrir að tvö fyrrnefndu málin hafi verið undirbúin af síðustu ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna og lítið annað hafi verið eftir fyrir núverandi stjórn en að ýta á takkann.
„Það má halda ýmsu fram en í reynd er aldrei hægt að eiga kökuna og borða hana, staðan er annaðhvort góð eða slæm en aldrei bæði í einu. Staðreyndir eru líka þannig að þær er á endanum hægt að sannreyna eða hrekja. Þetta augljósa eðli þeirra hemur oftast yfirlýsingagleði fólks, en alls ekki alltaf,“ skrifar Hildur.
Hildur bendir einnig á að hallalaus fjárlög árið 2027 hafi verið markmið í fjármálaáætlun sem síðan hafi horfið áður en áætlunin var samþykkt á Alþingi.
Samt haldi stjórnarliðar áfram að tala um það sem staðreynd.
Meira að segja fjármálaráðherra ríkisstjórnarinnar hefur opinberlega lýst yfir vonbrigðum með að fjármálaáætlunin hafi ekki skilað tilætluðum árangri, hvorki í lægri verðbólgu né vöxtum.
Hann hafi jafnframt boðað harðara aðhald í haust verði hagvísar ekki betri.
Hildur segir þessa mótsagnakenndu frásögn sýna að ríkisstjórnin lýsi bæði miklum sigrum og vonbrigðum á sama tíma – og undirbúi frekari aðgerðir sem ekki sé ljóst hvort verði raunverulegt aðhald eða einfaldlega „aðhald á tekjuhlið“.
„Ríkisstjórnin hefur sem sagt að eigin mati unnið mikla stórsigra, sem byggjast fyrst og fremst á vinnu fyrri ríkisstjórnar og eigin óskhyggju. En staðan er á sama tíma að hennar sögn vonbrigði og þörf á aðgerðum.
Það vekur veika von í hjarta að boðað sé „enn harkalegra aðhald í haust“. Sporin hræða þó. Það kemur fljótt í ljós hvort ráðherrar allir leggi sama skilning í stöðuna,” skrifar Hildur.
„Aðhald á tekjuhlið“
Hildur gagnrýnir sérstaklega að „aðhald á tekjuhlið“, sem þýðir auðvitað í raun bara hærri gjöld og skattar en sé kallað „aðhald.“
Aðhald eigi að snúast um sparnað, hagræðingu og skynsamlega nýtingu fjármuna sem þegar renna til ríkissjóðs, en ekki auknar álögur á almenning og fyrirtæki.
„Samkvæmt orðabók merkir orðið aðhald eftirlit með kröfum um árangur eða hlýðni, sparnað eða megrun. Aðhald á tekjuhlið er nýtt öfugmæli stjórnarinnar og þýðir langoftast einfaldlega gjalda- eða skattahækkanir,” skrifar Hildur.
Hildur bendir ríkisstjórninni á að nýmál og orwellískir orðafimleikar breyti ekki staðreyndum.
„Skattpíning er ekki aðferð sem skilar árangri. Leiðirnar til að skapa farsæld blasa hins vegar alltaf við, að skapa jarðveg fyrir hagvöxt og nýsköpun annars vegar en hins vegar raunverulegt aðhald í rekstri; hagræðing og skynsamleg nýting þeirra fjármuna sem þegar renna til ríkissjóðs.“