Í nýjumpistli í Morgun­blaðinu gagn­rýnir Hildur Sverris­dóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, stjórn­völd fyrir að full­yrða að þau hafi „um­bylt ríkis­fjár­málum á átta mánuðum“ þegar stað­reyndirnar bendi til annars.

Hún segir stjórnar­liða hafa hrósað sér af sölu Ís­lands­banka, úr­lausn mála ÍL-sjóðs og fyrir­huguðum halla­lausum fjár­lögum árið 2027 – þrátt fyrir að tvö fyrr­nefndu málin hafi verið undir­búin af síðustu ríkis­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Framsóknar og Vinstri grænna og lítið annað hafi verið eftir fyrir núverandi stjórn en að ýta á takkann.

„Það má halda ýmsu fram en í reynd er aldrei hægt að eiga kökuna og borða hana, staðan er annaðhvort góð eða slæm en aldrei bæði í einu. Stað­reyndir eru líka þannig að þær er á endanum hægt að sann­reyna eða hrekja. Þetta aug­ljósa eðli þeirra hemur oftast yfir­lýsingagleði fólks, en alls ekki alltaf,“ skrifar Hildur.

Hildur bendir einnig á að halla­laus fjár­lög árið 2027 hafi verið mark­mið í fjár­málaáætlun sem síðan hafi horfið áður en áætlunin var samþykkt á Alþingi.

Samt haldi stjórnar­liðar áfram að tala um það sem stað­reynd.

Meira að segja fjár­málaráðherra ríkis­stjórnarinnar hefur opin­ber­lega lýst yfir von­brigðum með að fjár­málaáætlunin hafi ekki skilað til­ætluðum árangri, hvorki í lægri verðbólgu né vöxtum.

Hann hafi jafn­framt boðað harðara aðhald í haust verði hag­vísar ekki betri.

Hildur segir þessa mót­sagna­kenndu frásögn sýna að ríkis­stjórnin lýsi bæði miklum sigrum og von­brigðum á sama tíma – og undir­búi frekari að­gerðir sem ekki sé ljóst hvort verði raun­veru­legt aðhald eða ein­fald­lega „aðhald á tekju­hlið“.

„Ríkis­stjórnin hefur sem sagt að eigin mati unnið mikla stór­sigra, sem byggjast fyrst og fremst á vinnu fyrri ríkis­stjórnar og eigin ósk­hyggju. En staðan er á sama tíma að hennar sögn von­brigði og þörf á að­gerðum.

Það vekur veika von í hjarta að boðað sé „enn harka­legra aðhald í haust“. Sporin hræða þó. Það kemur fljótt í ljós hvort ráðherrar allir leggi sama skilning í stöðuna,” skrifar Hildur.

„Aðhald á tekju­hlið“

Hildur gagn­rýnir sér­stak­lega að „aðhald á tekju­hlið“, sem þýðir auðvitað í raun bara hærri gjöld og skattar en sé kallað „aðhald.“

Aðhald eigi að snúast um sparnað, hag­ræðingu og skyn­sam­lega nýtingu fjár­muna sem þegar renna til ríkis­sjóðs, en ekki auknar álögur á al­menning og fyrir­tæki.

„Sam­kvæmt orða­bók merkir orðið aðhald eftir­lit með kröfum um árangur eða hlýðni, sparnað eða megrun. Aðhald á tekju­hlið er nýtt öfug­mæli stjórnarinnar og þýðir lang­oftast ein­fald­lega gjalda- eða skatta­hækkanir,” skrifar Hildur.

Hildur bendir ríkis­stjórninni á að nýmál og orwellískir orða­fim­leikar breyti ekki stað­reyndum.

„Skatt­píning er ekki að­ferð sem skilar árangri. Leiðirnar til að skapa farsæld blasa hins vegar alltaf við, að skapa jarðveg fyrir hag­vöxt og nýsköpun annars vegar en hins vegar raun­veru­legt aðhald í rekstri; hag­ræðing og skyn­sam­leg nýting þeirra fjár­muna sem þegar renna til ríkis­sjóðs.“