Eigandi rafbifreiðar á ekki rétt á bótum um kaskótryggingu bifreiðar sinnar eftir að hafa ekið á grjóthnullung sem eyðilagði meðal annars batterí bifreiðarinnar. Að mati úrskurðarnefndar í vátryggingamálum þótti ekki sannað hvernig skemmdirnar áttu sér stað. Eigandinn situr því uppi með tjón upp á rúmar þrjár milljónir króna.

Samkvæmt atvikalýsingu var maðurinn á akstri við Lambhagaveg þegar mikil og ítrekuð högg komu á bifreiðina. Ökumaðurinn staðnæmdist og sá grjóthnullung á götunni. Sá hafði laskað ökutækið mikið en tjón varð á drifmótor, tengingu á háspennukapli og batteríi bílsins. Bilunin kom aftur á móti ekki í ljós fyrr en raki komst í sárið svo leiddi út. Viðgerð hefði kostað 3,4 milljónir króna.

Tryggingafélag bílsins hafnaði því að bæta tjónið úr kaskótryggingu hans þar sem vátryggingin tæki ekki til tjóns þegar bifreið væri ekið yfir laust grjót eða grjóthnullunga. Enn fremur tæki tryggingin ekki til tjóns á undirvagni.

Þessu vildi maðurinn ekki una en hann taldi að um árekstur hefði verið að ræða. Hnullungurinn hefði verið á miðri akbrautinni og hann hefði ekið á hann. Eftir það hefði hann farið undir bílinn og dregist eftir honum. Tryggingafélagið benti á á móti að ef um áakstur hefði verið að ræða þá hefði átt að vera hægt að sjá dæld framan á honum.

„Eins og þetta lítur út fyrir okkur þá hefur verið ekið á stein eða annan aðskotahlut, hann hefur lent harkalega á festingu á drifmótor að framan og tengingu á háspennukapli sem liggur að mótornum með þeim afleiðingum að bæði brotnar. Hluturinn hefur svo rúllað aftur eftir bílnum og gert 3 dældir upp undir háspennubatteríið,“ sagði í lýsingu bifvélavirkja sem mat bifreiðina eftir slysið.

Í niðurstöðu nefndarinnar sagði að af ljósmyndum að dæma væri um þrjár aðskildar dældir á undirvagninum en ekki samfellda skemmd. Benti það til þess að grjót hefði hrokkið undir bifreiðina og því var ekki talið að um árekstur hefði verið að ræða. Samkvæmt skilmálum tryggingarinnar er slíkt undanskilið gildissviði tryggingarinnar og bótum því hafnað.