Danska hönnunar­húsið Paustian, eitt þekktasta nafn landsins í hágæða innan­húss­hönnun, er orðið gjaldþrota. Þetta gerist aðeins rúmu ári eftir að merkið var endur­reist í nýju félagi eftir fjár­hags­lega endur­skipu­lagningu.

Frantz Long­hi, arki­tekt og fram­kvæmda­stjóri, sem er þekktur fyrir að hafa bjargað Kähler-merkinu á sínum tíma, hefur stýrt Paustian síðan 2017.

Hann viður­kennir nú að ekki hafi verið lengur for­svaran­legt að halda rekstrinum áfram.

Sam­kvæmt yfir­lýsingu skipta­stjórans, Anders Bendt­sen lög­manns hjá Lind lög­manns­stofunni, náði Paustian met­tekjum upp á 250 milljónir danskra króna á síðasta ári.

En síðan hafi markaðurinn fyrir hágæða hönnunar­hús­gögn tekið dýfu og sala minnkað veru­lega.

„Félagið gerði ráð fyrir að markaðurinn fyrir sér­hönnuð hús­gögn myndi taka við sér en hið gagnstæða gerðist – markaðurinn hrundi,“ segir í yfir­lýsingu Bendt­sen en Børsen greinir frá. .

Til viðbótar tókst ekki að ná sam­komu­lagi um lægra húsa­leigu­verð fyrir verslun Paustian á Strikinu í Kaup­manna­höfn.

„Leigan var ein­fald­lega of há miðað við núverandi markaðsaðstæður,“ segir í til­kynningunni.

Brunaút­sala hefst strax

Vegna gjaldþrotsins verður allt vöruúr­val verslunarinnar í Kaup­manna­höfn, hús­gögn og hönnunar­vörur, metnar á yfir 10 milljónir danskra króna á kostnaðar­verði, selt á „al­gjörum brunaútsölu­verðum“ frá og með morgun­deginum.

Skipta­stjóri segir þó að verið sé að kanna mögu­leika á að halda Paustian-merkinu áfram í nýrri upp­byggingu, en það krefjist nýrra fjár­festa.

Long­hi úti­lokar ekki að koma að slíku fram­taki síðar, en segir nauð­syn­legt að fá aðila með nýja sýn og reynslu úr greininni að borðinu.

Paustian var stofnað árið 1964 af Ole Paustian.

Frantz Long­hi tók við rekstrinum og eignar­haldinu árið 2017 en eftir gjaldþrot verslunar í Ár­ósum árið 2023 stóð verslunin í Kaup­manna­höfn ein eftir.

Nýja félagið sem átti að bjarga merkinu var stofnað í ágúst 2024, en aðeins ári síðar er nú orðið ljóst að reksturinn stóð ekki undir sér.