Húsgagnasalinn Hirzlan, sem sérhæfir sig í skrifstofuhúsgögnum, hagnaðist um 32 milljónir króna árið 2021 samanborið við 29,6 milljóna hagnað árið áður. Tekjur félagsins jukust um 35,6% á milli ára og námu 496 milljónum króna á síðasta ári.

Hirzlan hefur vaxið hratt frá því að Stefán Stefánsson og Leifur Aðalsteinsson keyptu fyrirtækið árið 2016. Velta húsgagnasalans hefur nærri þrefaldast frá árinu 2017, sem var fyrsta heila rekstrarárið undir þeirra stjórn.

Halldór I. Stefánsson, sölustjóri Hirzlunnar, sagði í viðtali fyrir sérblaðið Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri síðastliðið haust að vinnuumhverfið hafi breyst töluvert eftir að kórónuveirufaraldurinn hófst með aukinni áherslu á heimaskrifstofuna. Því hafi mörg fyrirtæki byrjað að kaupa skrifstofuhúsgögn fyrir heimili starfsfólks síns.

Sjá einnig: Heimaskrifstofan í algleymingi

Í ársreikningi Hirzlunnar kemur fram að félagið hafi á síðasta ári keypt fasteign á 289 milljónir króna. Félagið tók ný langtímalán á síðast ári að fjárhæð 236,6 milljónir króna. Verslun Hirzlunnar er til húsa í Síðumúla 37 en fyrirtækið er auk þess með þúsund fermetra vöruhús í Dugguvogi.

Eignir félagsins námu 483 milljónum króna í lok síðasta árs, samanborið við 149 milljónir árið áður. Eigið fé jókst úr 72 milljónum í 104 milljónir króna á milli ára.