Íbúar á Húsavík hafa nú bæst við í hóp Norðlendinga sem geta pantað matinn sinn heim í Snjallverslun Krónunnar en í tilkynningu frá Krónunni segir að mikil eftirspurn eftir þjónustu hafi verið á svæðinu.
Krónan hefur þegar verið með heimsendingar á Akureyri, Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði en verslunin hefur síðastliðin ár unnið að því að auka við og efla dreifingu Snjallverslunar á landsbyggðinni.
„Við erum spennt að sjá hvernig Húsvíkingar taka á móti okkur en vel hefur verið tekið í heimsendingar af íbúum í þeim bæjarfélögum sem nú þegar geta nýtt þjónustuna. Þetta er mikill ávinningur fyrir Krónuna og ekki síst viðskiptavini og stefnum við á enn frekari dreifingu á landsbyggðinni í náinni framtíð,“ segir Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar.
Opnað verður fyrir pantanir á Húsavík í dag, fimmtudag og munu fyrstu pantanir berast bæjarbúum mánudaginn 15. janúar. Viðskiptavinir á landsbyggðinni fá fría heimsendingu ef pantað er fyrir 18 þúsund krónur eða meira í Snjallverslun.