Mikil óvissa ríkir í aðdraganda kjarasamninga en verðbólga um allan heim hækkar og ekki sér fyrir endann á henni í náinni framtíð. Sé tekið mið af þjóðhagsspá Hagstofunnar hefur vísitala landsframleiðslu á mann lækkað um 4,2% frá árinu 2019, þegar lífskjarasamningarnir voru gerðir. Hlutfallið á milli launa og launatengdra gjalda og vergra þáttatekna hefur haldist nokkuð stöðugt á sama tímabili og stendur nú í 61%. Samkvæmt Peningamálum Seðlabanka Íslands, sem kom út í febrúar á þessu ári, er ekki gert ráð fyrir því að framleiðni muni aukast að ráði á næstu árum.
Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, segir það vera mismunandi eftir atvinnugreinum hversu mikið sé til skiptanna. „Sum fyrirtæki eru löskuð en önnur hafa blómstrað. Það væri því skynsamlegt að semja ekki um sömu launahækkanirnar heilt yfir heldur eftir atvinnugreinum - það er svo mismunandi hversu mikið svigrúm er."
Stefanía K. Ásbjörnsdóttir, hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins, nefnir þumalputtaregluna varðandi svigrúm til launahækkana. „Oft hefur verið talað um að leggja megi breytingu í framleiðni, um 1,5%, ofan á 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans sem gefur þá svigrúm upp á 4%. Hins vegar er útlit fyrir minni framleiðnivöxt á komandi árum. Almennt hefur tekið að hægja á framleiðnivexti í okkar helstu samanburðarlönum en því til viðbótar er fjármagnsstofninn hér lítill og fjárfesting ekki upp á marga fiska," segir Stefanía. Að hennar sögn er mikilvægt að tekið sé tillit til þess hvernig hagkerfið sé byggt upp þegar samið er. „Fyrir heimsfaraldurinn var launahlutfallið í ferðaþjónustunni í kringum 80% og það er enn hærra í dag." Hún nefnir að nýlega hafi kjarasamningar verið endurnýjaðir í Noregi þar sem samið hafi verið um 3,7% almenna hækkun en búist er við 3,3% verðbólgu þar í ár. „Í Noregi eru það iðnfyrirtæki sem eru berskjölduð gagnvart erlendri samkeppni sem leiða og gefa merkið fyrir aðra, það er ekki þannig hér."
Óvissa um efnahagsframvindu
Stefanía bendir á að launahlutfallið hafi haldist nokkuð stöðugt frá síðustu kjarasamningum. „Þegar horft er á launahlutfallið yfir hagkerfið í heild þá hefur það nánast staðið í stað á samningstímabilinu en staðan er flóknari en svo þar sem sömu sögu er ekki að segja um þróunina í einstaka atvinnugreinum. Þess vegna er mikilvægt að þegar gengið verður til kjaraviðræðna nú að tekið sé tillit til mismunandi stöðu atvinnugreina, hvað sé hægt að gera til að koma til móts við bæði fyrirtæki og fólk."Hugsanlega væri í einhverjum tilfellum mögulegt að horfa út fyrir kassann og kanna hvort hægt sé að gera umbætur á öðrum sviðum en þeim sem snúa sérstaklega að launatöxtum.
Hún segir mikla óvissu um efnahagsframvindu einkenna aðdraganda þessara kjarasamninga en stólað sé á hagvöxt til að bæta afkomu ríkissjóðs í fjármálaáætluninni sem nýlega var lögð fram. Þar sé ráðandi tekjubati sem sé að mestu til kominn vegna efnahagsframvindunnar. „Það er allra hagur, bæði launafólks og fyrirtækja, að gefa atvinnulífinu rými til að vaxa út úr núverandi ástandi. Það þarf að gefa fyrirtækjunum svigrúm því það er þaðan sem vöxturinn kemur - ekki frá ríkinu," segir Stefanía og tekur fram að mikilvægt sé að ríkið og sveitarfélögin verði ekki leiðandi í launaþróun.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .