Fyrir um fjórum áratugum tók nýr sjúkdómur að herja á Vesturlandabúa af völdum HIV-veirunnar, sem skerti ónæmiskerfi líkamans svo mjög að ýmsar tækifærissýkingar tærðu menn upp og lögðu þá í gröfina í hrönnum. Sjúkdómurinn var í fyrstu gersamlega óviðráðanlegur en á síðari áratugum hefur reynst unnt að halda honum í skefjum. Þó ekki fyrr en hann hafði lagt 35-40 milljónir manna að velli.
Á Íslandi höfðu menn ekki minni áhyggjur af sjúkdómnum en annars staðar, en eitt af því sem nokkuð var rætt um var hvað kalla skyldi pláguna á íslensku. Fyrst í stað var notast við mjög langar og kauðskar þýðingar á erlendu heiti heilkennisins, en í mæltu máli notuðu flestir hina ensku skammstöfun AIDS.
Það þótti hreintungumönnum ekki góð latína og því var íslensks heitis leitað. Ekki síst auðvitað af fjölmiðlum, sem fjölluðu reglulega um þennan nýja vágest en vildu gera það á íslensku.
Ein fyrsta uppástungan var að kalla sjúkdóminn eyðni, sem bæði var lýsandi fyrir einkenni hans og með hljóðlíkingu við ensku skammstöfunina, og það heiti fékk talsverða útbreiðslu og heyrist enn. Þá heyrðust hins vegar mótbárur á þeim forsendum að það sjúkdómsheiti væri of neikvætt og ógnvænlegt, það yrði að finna annað hlutlausara og að lokum varð alnæmi ofan á.
Einum prófarkalesara Morgunblaðsins, sem horft hafði á eftir nokkrum vinum í greipar sjúkdómsins, blöskraði þó þessi umræða um að ekki mætti velja þessum ógeðslega sjúkdómi of ógeðslegt heiti og spurði hvort menn ættu ekki bara að kalla hann blómaveikina og þá gætu allir tekið gleði sína á ný!
***
Þetta rifjast upp nú þegar heimsbyggðin óttast farsótt frá Kína og tilmæli koma frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) um að nota staðalheiti stofnunarinnar og kalla veikina því þjála heiti Covid-19. Að sögn talsmanns stofnunarinnar var nafnið valið til að koma í veg fyrir að vísað væri til tiltekins landsvæðis, dýrategundar eða ámóta í tengslum við sjúkdóminn. Fram að því höfðu flestir talað um kórónuveiruna eða kennt við borgina Wuhan, þar sem hún breiddist fyrst út.
Það er erfitt að átta sig á því hvað WHO gengur til. Ýmsar sóttir aðrar, svo sem spænska veikin og fransós, hafa verið kenndar við lönd og þjóðir, án þess að þeim hafi verið legið sérstaklega á hálsi fyrir útbreiðslu þeirra, en sennilega eru lýsandi heiti algengari og betri: svarti dauði, stóra-bóla, tæring.
Fjölmiðilarýnir minnir á að blómaveikin er ennþá laus til umsóknar vanti betra nafn.
***
Þessi „rebranding“-æfing hjá WHO er sennilegast runnin undan rótum kínverskra stjórnvalda, sem eru ákaflega viðkvæm gagnvart öllu því, sem þeim þykir varpa skugga á sig eða landið, svona nánast eins og almannatengslin skipti ekki minna máli en það að halda útbreiðslu sjúkdómsins í skefjum. Þá er auðvitað hollt að minnast þess að þrátt fyrir allar breytingarnar í Kína á liðnum árum, þá er Rauða-Kína ennþá kommúnískt alræðisríki og þar hefur einræðið frekar aukist en hitt upp á síðkastið.
***
Danska blaðið Jyllands-posten birti þannig mynd á skoðanasíðu hjá sér á dögunum, sömu mynd og gefur að líta hér að ofan. Kínversk stjórnvöld brugðust afar hart við og sendiherra þeirra í Danmörku og krafðist afsökunarbeiðni frá blaðinu og teiknaranum, farsóttin væri ekkert til þess að henda gaman að eða reyna að kasta rýrð á Kínverja út af.
Þarna er alræðisstjórnin á villigötum. Fyrst er til að tína að myndin er ekki skopmynd, hún er myndskreyting og í henni felst mögulega skoðun, en þar er ekki verið að hæðast að einum eða neinum, hvað þá þjóðum Kína. Um er að ræða veirusjúkdóm, upprunninn í Kína og myndin lýsir því, án þess að í henni felist sérstök gagnrýni. Er þó margt varðandi viðbrögð kínverskra embættismanna við fyrstu sjúkdómstilvikunum, sem er mjög gagnrýnisvert.
Umfram allt var Jyllands-posten, einu sinni sem oftar, að nota tjáningarfrelsið til þess að lýsa heiminum og það verður blaðið að geta gert þó einhver sé blaðinu ósammála eða móðgist.
***
Frétt vikunnar var án vafa Óskarsverðlaunin sem Hildi Guðnadóttur hlotnuðust. Fjölmiðlarýnir sá út undan sér að einhverjir undruðust að íslenskir fjölmiðlar hefðu ekki gert út fréttaritara til þess að vera á staðnum, en fyrir því eru fremur hversdagslegar ástæður. Tilnefning Hildar varð ekki ljós fyrr en í liðnum mánuði, þó hún hafi vissulega þótt líkleg fyrr.
Fjölmiðlaaðgangur að Óskarsverðlaunaafhendingunni er hins vegar mjög takmarkaður, en til þess að eiga sjens þarf að sækja um fyrir miðjan nóvember. En jafnvel þó svo einhverjir hefðu verið svo forsjálir, þá eru líkurnar á að íslenskir örmiðlar kæmust þar að afar litlar.
En það er skiljanlegt að fólk hafi spurt, fréttin stór á Íslandi og þjóðin uppveðraðist eins og vanalega, gaf Hildi nafnbótina „okkar“ og alls kyns spekingar skeggræddu um hvernig þetta væri í raun viðurkenning til handa íslensku menningarlífi, fundu þar ótvíræða sönnun á nauðsyn listamannalauna og þar fram eftir þeim götum sem hver vildi helst rata.
Og fjölmiðlafólk var ekki síður hrifnæmt, eins og lesa mátti í leiðara Kjarnans, sem vor gamli kollegi hér á Viðskiptablaðinu, Magnús Halldórsson, skrifaði:
Dans Jókersins — í tröppunum í Bronx eða inn á baðherberginu — hefði ekki orðið til nema með þrotlausri og áralangri vinnu íslensks listamanns. Það er svolítið mögnuð hugsun og segir sína sögu um landamæraleysi listarinnar. Innan hennar sjást Hvítir fílar á hæðum – þar sem listamenn vísa veginn með því að gera hlutina vel, hvað sem það kostar.
Jájá, það er í góðu lagi hjá fjölmiðlum að hrífast með stemningunni, en öllu má samt ofgera. Brugðust íslenskir blaðamenn líka svona ljóðrænt við hjólhestaspyrnu Búbba á móti Austur-Þýskalandi?