Þrátt fyrir að fyrirtæki hafi óáreitt selt neytendum hér á landi áfengi í gegnum vefverslanir um nokkurra ára skeið ríkir sem fyrr óvissa um hvort salan brjóti gegn einkarétti Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) til smásölu áfengis sem kveðið er á um í áfengislögum. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur ekki farið í grafgötur með vilja sinn til að heimila einkaaðilum að stunda smásölu áfengis á netinu en hefur þrátt fyrir það ekki boðað frumvarp sem myndi heimila slík viðskipti. Í svari Þorbjargar Sigríðar við könnun sem Viðskiptablaðið framkvæmdi fyrir tæpu ári síðan um afstöðu þingmanna, sem þá sátu á þingi, til netsölu áfengis kom fram að hún væri hlynnt smásölu á netinu og sé þar af leiðandi ekki hlynnt einkasölu ÁTVR.
Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gerðu, á meðan flokkurinn sat í ríkisstjórn, árangurslausar tilraunir til að setja umrætt mál á dagskrá. Guðrún Hafsteinsdóttir, núverandi formaður flokksins og þáverandi dómsmálaráðherra, stefndi að því að leggja frumvarp sem myndi heimila vefverslun með áfengi á síðasta kjörtímabili. Frumvarpið var komið til umsagnar í Samráðsgátt en fór ekki lengra þar sem upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna slitnaði skömmu eftir að frestur til að skila inn umsögnum rann út.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, lagði fram sambærilegt frumvarp og Guðrún hugðist leggja fram árið 2020 en í greinargerð þess kom fram að það skjóti skökku við að neytendur geti pantað sér áfengi úr erlendum áfengisverslunum, þá fyrst og fremst í gegnum netverslanir, en geti ekki gert slíkt hið sama úr sambærilegum innlendum verslunum. Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, lagði svo fram svipað frumvarp tveimur árum síðar.
Smáríkið dregið fyrir dóm
Á dögunum dró til tíðinda. Á miðvikudaginn í síðustu viku greindi Viðskiptablaðið frá því að gefnar yrðu út ákærur á á hendur forsvarsmönnum þeirra fyrirtækja sem starfrækja netverslun með áfengi. Tveimur dögum síðar greindi blaðið svo frá því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi ákært Vilhjálm Forberg Ólafsson, framkvæmdastjóra áfengisnetverslunarinnar Smáríkisins, fyrir brot gegn áfengislögum.
Í ákærunni er hann sakaður um að hafa sem stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og daglegur stjórnandi Kjútís ehf., og daglegur stjórnandi í Icelandic Trading Company b.v. selt eina þriggja lítra hvítvínsbelju til tilgreinds einstaklings í gegnum vefsíðu Smáríkisins. Síðarnefnda félagið, sem er skráð erlendis, er söluaðili áfengisins. Umrædd hvítvínsbelja var afhend kaupanda af sendli á vegum Wolt.
Í ákærunni segir að Kjútís hafi keypt áfengið af áfengisheildsala á Íslandi á grundvelli tímabundins leyfis til heildsölu áfengis og geymt það á starfsstöð sinni að Fellsmúla 24 í Reykjavík „þar til áfengið var selt og afhent umræddum einstakling en framangreind viðskipti fóru fram án þess að ákærði og félögin sem hann veitti fyrirsvar hefðu leyfi til smásölu áfengis á Íslandi á umræddu tímabili.“ Þannig hafi Icelandic Trading Company b.v. ekki flutt áfengið til Íslands í kjölfar pöntunarinnar í gegnum vefsíðuna heldur haft milligöngu um smásölu áfengis sem Kjútís hafði þegar keypt hjá áfengisheildsala á Íslandi og haft í geymslu á starfsstöð sinni. Þannig hafi Vilhjálmur brotið gegn einkaleyfi ÁTVR til smásölu áfengis á Íslandi.
Málið verður þingfest á miðvikudaginn í næstu viku í Héraðsdómi Reykjaness.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.