Icelandair hækkaði um 12,5% í 450 milljóna króna veltu í Kauphöllinni í dag. Gengi flugfélagsins hækkaði úr 1,50 krónum á hlut í 1,58 krónur á síðasta klukkutíma viðskipta. Félagið hefur nú hækkað um 21,5% frá 24. mars síðastliðnum en hlutabréfaverðið hefur sveiflast mikið að undanförnu.
Að Icelandair undanskildu, hækkuðu fasteignafélögin þrjú í Kauphöllinni mest allra félaga í dag. Reitir hækkuðu um 3,5%, Reginn um 3,4% og Eik um 3,1%. Tilkynning barst frá Eik í dag um að margfeldiskosningu verður beitt fyrir stjórnarkjör á aðalfundi félagsins á mánudaginn næsta.
Mesta veltan var með hlutabréf bankanna Arion og Kviku. Arion hækkaði um 1,6% í 789 milljóna króna veltu og Kvika hækkaði um 2,4% í 477 milljóna króna viðskiptum.
Sjá einnig: Guðbjörg seldi í Kviku fyrir 2 milljarða
Eina félagið sem lækkaði í dag var Brim en gengi útgerðarfélagsins lækkaði um 0,6% í 83 milljóna króna veltu. Hins vegar hafði Brim hækkað um tæp 9% frá því í lok mars.