Félög í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, aðaleigenda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, seldu meira en 2% eignarhlut í Kviku banka í byrjun síðustu viku. Um tveggja milljarða króna sala fór fram fyrir opnun hlutabréfamarkaða á síðastliðinn mánudag eða samtals 100 milljónir hluta að nafnverði. Sjóðir í stýringu Akta voru meðal þeirra fjárfesta sem keyptu bréfin af Guðbjörgu, samkvæmt heimildum Markaðarins .

Kvika sameinaðist TM í byrjun mánaðarins og fengu hluthafar TM greitt með bréfum í Kviku en Guðbjörg hafði verið meðal stærstu hluthafa TM í nokkurn tíma. Guðbjörg og fjölskylda eiga enn meira en 1% eignarhlut og framvirka samninga í Kviku í gegnum félögin ÍV fjárfestingafélag og Kristinn ehf.

Félög Guðbjargar keyptu á sama tíma í Símanum fyrir rúmlega milljarð króna, sem jafngildir um 1,3% hlut í fjarskiptafélaginu, og eru nú meðal tuttugu stærsta hluthafa Símans.