Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics og forstöðumaður rannsóknaseturs um kerfisáhættu í fjármálakerfinu, er þeirrar skoðunar að núverandi verðbólga sé komin til að vera og að seðlabankar heimsins hafi gert reginmistök í kórónuveirufaraldrinum. Seðlabankar hafi brugðist við líkt og um lausafjárkrísu væri að ræða með því að lækka vexti og prenta peninga í miklu magni. Rétt viðbrögð við Covid-krísunni hefðu verið að nota ríkisfjármálin til að hjálpa fólki í erfiðleikum en seðlabankar heimsins hafi átt að sitja hjá.
Rannsóknir Jóns sýna fram á að inngrip seðlabanka Bandaríkjanna og Evrópu hefðu sent þau skilaboð að bankarnir tryggðu fjármálafyrirtæki fyrir miklu tapi þegar truflun yrði á mörkuðum. Það skapi freistnivanda og auki líkurnar á því að fjármálafyrirtæki taki óþarfa áhættu í framtíðinni.
Einnig telur hann afskaplega varhugavert að ríkið taki upp á því að tryggja einkafyrirtæki fyrir áföllum. Það séu fyrirtæki í áhætturekstri og þegar vel gangi hagnist eigendurnir en tapi síðan þegar illa gangi.
„Ef ríkið fer að gera það, þá skapar það enn meiri freistnivanda og gerir þau háð ríkisvaldinu, en ríkið hefur nóg á sinni könnu án þess að þurfa að tryggja einkafyrirtæki fyrir tapi. Ef einkafyrirtæki vilja tryggja sig geta þau bara keypt sér tryggingar hjá tryggingafélögum eins og allir aðrir gera."
Í efnahagsáföllum eins og gengu yfir árið 2020 segir hann mikinn mun á því að verja einstaklinga fyrir verstu áföllunum eða að verja einkafyrirtæki sem séu í áhætturekstri. Aðgerðir ríkisvaldsins eins og hlutabótaleiðin hafi verið mjög skynsamleg og eðlileg. Hins vegar er hann á öðru máli varðandi styrki og lán með ríkisábyrgð.
„Ef fyrirtæki þarf á lánsfjármagni að halda getur það bara farið á markaðinn og fengið sitt lánsfjármagn - til þess höfum við banka og skuldabréfamarkað."
Hversu langt á ríkið að ganga?
Jón er þeirrar skoðunar að sama þótt rekstrargrundvöllur margra fyrirtækja hafi brostið vegna aðgerða ríkisins í kórónuveirufaraldrinum sé það ekki ríkisins að tryggja einkafyrirtæki fyrir áföllum.
„Þetta er í rauninni mjög heimspekileg spurning. Hvert er hlutverk ríkisins til að hjálpa efnahagslífinu? Á ríkið að hjálpa einkafyrirtæki sem verður fyrir áfalli? Hvar eru endimörk þess hversu langt ríkið eigi að ganga til að aðstoða samfélagið? Árið 2008 lentu gríðarlega mörg einkafyrirtæki í gjaldþroti vegna mikils samdráttar sem varð í efnahagslífinu en þá var ekki verið að hjálpa einkafyrirtækjum neitt."
Hann ítrekar mikilvægi þess að ríkið hjálpi einungis þeim sem lendi í erfiðleikum en töluvert mikill meirihluti fólks hafi ekki orðið fyrir neinum efnahagslegum áhrifum af Covid.
„Fjárhagur heimilanna batnaði töluvert mikið í faraldrinum vegna þess að neysla dróst saman en tekjur héldust stöðugar. Sá sparnaður er að valda mikilli þenslu í dag og er ein af ástæðum þess hversu mikil eftirspurn er eftir vörum og þjónustu af öllum tegundum sem hjálpar svo til við verðbólguna."
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .