Fjármálaeftirlitið í Bretlandi hefur sektað Citi Group Global Markets, dótturfélag Citi Group, vegna mistaka starfsmanna sem og kerfisvillu sem leiddi til þess að verðbréf fyrir 1,4 milljarða Bandaríkjadala voru seld fyrir mistök.
The Wall Street Journal greinir frá úrskurði eftirlitsins en um er að ræða innsláttarvillu hjá starfsmanni dótturfélagsins er hann setti verðbréfasafn sem er metið á 444 milljarða Bandaríkjadali á sölu í stað verðbréfasafns sem er metið á 58 milljónir Bandaríkjadali.
Innra eftirlit bankasamstæðunnar náði að stöðva hluta sölunnar en verðbréf fyrir 189 milljarða fóru í söluferli hjá bankanum og kom algrím forritsins þónokkrum eignum í sölu yfir daginn.
Verðbréf fyrir 1,4 milljarða eða 193 milljarða íslenskra króna voru seld á evrópskum mörkuðum áður en ferlið var stöðvað, segir í úrskurði breska fjármálaeftirlitsins.
Þrátt fyrir að starfsmaðurinn hafi gert mistök segir eftirltið að eftirlitskerfi hjá Citi hafi verið gallað þar sem starfsmaður gat komið sér framhjá öllum viðvörunargluggam með því einfaldlega að smella á „samþykkja.“
Að mati eftirlitsins hafði hið gríðarlega framboð neikvæð áhrif á markaðinn og lækkuðu hlutabréfavísitölur víða um Evrópu vegna mistakanna. Milljarða punda kauptilboð sem voru lögð inn en síðan hafnað höfðu einnig afleidd áhrif á markaði.
Citigroup Global Markets var sektað um 61,6 milljón pund af eftirlitinu, sem samsvarar um 11 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Í yfirlýsingu frá bankasamstæðunni segir að allt ferlið, frá því verðbréfasafnið var sett á sölu og þangað til salan var stöðvuð, hafi tekið örfáar mínútur.