Ísfélag hf. skilaði rekstrartekjum upp á 75,7 milljónir bandaríkjadala á fyrri árshelmingi 2025, sem samsvarar um 10,1 milljarði króna miðað við meðalgengi tímabilsins.
Félagið var þó rekið með tapi upp á 9,7 milljónir dala, sem er um 1,29 milljarða króna miðað við meðalgengi, á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við hagnað upp á 300 þúsund dali á sama tímabili í fyrra.
Hrein fjármagnsgjöld námu 20,8 milljónum dala, þar af voru 13,2 milljónir dala vegna gengistaps á bandaríkjadal, sem er uppgjörsmynt félagsins.
Á móti hækkaði bókfært virði í dóttur- og hlutdeildarfélögum um 12 milljónir dala vegna gengisbreytinga.
EBITDA nam 17,7 milljónum dala eða 23,4% framlegð, sem jafngildir um 2,36 milljörðum króna.
„Afkoma á fyrri árshelmingi markaðist af mikilli veikingu dollars, uppgjörsmyntar félagsins. Hrein fjármagnsgjöld voru 20,8 m.USD, þar af voru 13,2 m.USD vegna veikingar dollars. Hins vegar hækkaði bókfært verðmæti í dóttur- og hlutdeildafélögum um 12 m.USD sökum gengisbreytinga. Svo til engin loðna var veidd á vetrarvertíðinni sem hafði einnig neikvæð áhrif á reksturinn,” segir Stefán Friðriksson forstjóri Ísfélagsins.
Miklar fjárfestingar og auknar skuldir
Fjárfestingar námu 84,1 milljón dala á fyrri árshelmingi en eignasala 16,6 milljónum dala. Félagið tók ný lán í byrjun árs og hækkuðu nettó vaxtaberandi skuldir úr 90,7 milljónum dala í árslok 2024 í 186,8 milljónir dala í lok júní 2025.
Heildareignir námu 843,5 milljónum dala í lok júní en eiginfjárhlutfallið var 63,6%, samanborið við 70,8% í árslok 2024.
Stefán Friðriksson forstjóri Ísfélagsins segir afkomu hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum af gengisþróun og loðnubresti en bendir á að markaðir fyrir fiskafurðir hafi verið sterkir, sérstaklega fyrir þorsk, ýsu, síld og makríl.
Hann varar við áhrifum minnkandi kvóta og skorts á hafrannsóknum:
Enn og aftur vil ég vekja athygli á og ítreka nauðsyn þess að auka hafrannsóknir. Með bættum hafrannsóknum eykst þekking okkar á lífríki hafsins og með því minnkar öll óvissa. Með því að draga úr óvissu verður hægt að ákveða leyfilegan heildarafla úr einstökum nytjastofnum á nákvæmari og betri hátt.
Það gagnrýnir jafnframt stjórnvöld harðlega fyrir hækkun veiðigjalda og hvernig var staðið að þeim.
„Ástæða er til að hafa áhyggjur af neikvæðu viðhorfi valdhafanna til sjávarútvegs. Mikil hækkun veiðigjalds og hvernig staðið var að verki við samningu frumvarpsins um þau og þinglega meðferð þess sýnir að þeir sem stjórna landinu kæra sig kollótta um verri samkeppnisstöðu greinarinnar, minni getu til fjárfestinga og lægra skattspor til framtíðar. Þetta viðhorf kom skýrt fram í sjónvarpsviðtali við forsætisráðherra í lok júní þar sem hún sagði að þessi leiðangur snérist um 4 til 5 fjölskyldur, þ.e.a.s. málið snýst að því er virðist um menn en ekki málefni, m.ö.o. er hér verið að fara í manninn en ekki boltann eins og sagt er á íþróttamáli.“