Ísfélag hf. skilaði rekstrartekjum upp á 75,7 milljónir bandaríkjadala á fyrri árshelmingi 2025, sem samsvarar um 10,1 milljarði króna miðað við meðalgengi tímabilsins.

Félagið var þó rekið með tapi upp á 9,7 milljónir dala, sem er um 1,29 milljarða króna miðað við meðalgengi, á fyrstu sex mánuðum ársins, samanborið við hagnað upp á 300 þúsund dali á sama tímabili í fyrra.

Hrein fjármagnsgjöld námu 20,8 milljónum dala, þar af voru 13,2 milljónir dala vegna gengistaps á bandaríkjadal, sem er uppgjörsmynt félagsins.

Á móti hækkaði bókfært virði í dóttur- og hlutdeildarfélögum um 12 milljónir dala vegna gengisbreytinga.

EBITDA nam 17,7 milljónum dala eða 23,4% framlegð, sem jafngildir um 2,36 milljörðum króna.

„Af­koma á fyrri árs­helmingi markaðist af mikilli veikingu dollars, upp­gjörs­myntar félagsins. Hrein fjár­magns­gjöld voru 20,8 m.USD, þar af voru 13,2 m.USD vegna veikingar dollars. Hins vegar hækkaði bók­fært verðmæti í dóttur- og hlut­deilda­félögum um 12 m.USD sökum gengis­breytinga. Svo til engin loðna var veidd á vetrar­vertíðinni sem hafði einnig neikvæð áhrif á reksturinn,” segir Stefán Friðriks­son for­stjóri Ís­félagsins.

Miklar fjár­festingar og auknar skuldir

Fjár­festingar námu 84,1 milljón dala á fyrri árs­helmingi en eigna­sala 16,6 milljónum dala. Félagið tók ný lán í byrjun árs og hækkuðu nettó vaxta­berandi skuldir úr 90,7 milljónum dala í árs­lok 2024 í 186,8 milljónir dala í lok júní 2025.

Heildar­eignir námu 843,5 milljónum dala í lok júní en eigin­fjár­hlut­fallið var 63,6%, saman­borið við 70,8% í árs­lok 2024.

Stefán Friðriks­son for­stjóri Ís­félagsins segir af­komu hafa orðið fyrir neikvæðum áhrifum af gengisþróun og loðnu­bresti en bendir á að markaðir fyrir fiska­furðir hafi verið sterkir, sér­stak­lega fyrir þorsk, ýsu, síld og makríl.

Hann varar við áhrifum minnkandi kvóta og skorts á haf­rannsóknum:

Enn og aftur vil ég vekja athygli á og ítreka nauðsyn þess að auka hafrannsóknir. Með bættum hafrannsóknum eykst þekking okkar á lífríki hafsins og með því minnkar öll óvissa. Með því að draga úr óvissu verður hægt að ákveða leyfilegan heildarafla úr einstökum nytjastofnum á nákvæmari og betri hátt. 

Það gagn­rýnir jafn­framt stjórn­völd harð­lega fyrir hækkun veiði­gjalda og hvernig var staðið að þeim.

„Ástæða er til að hafa áhyggjur af neikvæðu viðhorfi vald­hafanna til sjávarút­vegs. Mikil hækkun veiði­gjalds og hvernig staðið var að verki við samningu frum­varpsins um þau og þing­lega með­ferð þess sýnir að þeir sem stjórna landinu kæra sig kollótta um verri sam­keppnis­stöðu greinarinnar, minni getu til fjár­festinga og lægra skatt­spor til framtíðar. Þetta viðhorf kom skýrt fram í sjón­varps­viðtali við for­sætis­ráðherra í lok júní þar sem hún sagði að þessi leiðangur snérist um 4 til 5 fjöl­skyldur, þ.e.a.s. málið snýst að því er virðist um menn en ekki mál­efni, m.ö.o. er hér verið að fara í manninn en ekki boltann eins og sagt er á íþrótta­máli.“