Iceland Sea­food International hf. (ISI) skilaði sterkri af­komu á fyrri árs­helmingi 2025 með veru­legri aukningu í tekjum og hagnaði, sam­kvæmt upp­gjöri sem birtist eftir lokun markaða í dag.

Tekjur félagsins námu 33,7 milljörðum króna sem er 10 pró­senta aukning frá sama tíma­bili í fyrra.

Fram­legð jókst í 3,3 milljarða króna úr 2,7 milljörðum árið áður og EBITDA hækkaði í 1,3 milljarða króna saman­borið við 720 milljónir í fyrra.

Á síðustu tólf mánuðum jókst EBITDA í 2,9 milljarða úr 1,8 milljörðum í fyrra.

Hagnaður fyrir skatta af reglu­legri starf­semi tvöfaldaðist milli ára og fór úr 158 milljónum króna í 331 milljón. Hagnaður eftir skatta nam 158 milljónum króna á móti tapi upp á 101 milljón króna á sama tíma­bili 2024.

Þessi viðsnúningur skýrist meðal annars af mikilli eftir­spurn eftir þorski og háu verði á honum ásamt lægra verði á laxi sem hefur bætt rekstur í Evrópu. Á móti vegur að óhagstæð gæða­sam­setning í rækju­afla og gengis­sveiflur höfðu neikvæð áhrif.

„Fyrri hluti ársins 2025 ein­kenndist af mikilli eftir­spurn eftir þorski og háum verðum. Bann Bandaríkjanna við inn­flutningi á rúss­neskum fiski hefur hækkað verð á hausuðum og slægðum þorski úr Barents­hafi, auk þess sem minnkandi kvóti bæði í Barents­hafi og At­lants­hafi hefur haft mikil áhrif. Ef horft er fram í tímann er búist við tak­mörkuðu fram­boði af hvít­fiski og áfram­haldandi háu verði.

Verð á laxi var lægra en spáð hafði verið sem skilaði betri rekstrarárangri í laxa­starf­seminni, ólíkt síðustu tveimur árum þegar tap var af þeirri starf­semi. Af­koman á fyrri hluta árs 2025 var betri en á sama tíma­bili 2024 og horfurnar fyrir restina af árinu eru jákvæðar. Gert er ráð fyrir að laxa­verð haldist stöðugt út þriðja árs­fjórðung og fram á síðari hluta þess fjórða,“ segir Ægir Páll Friðberts­son for­stjóri ISI.

Allar helstu rekstrar­einingar félagsins skiluðu jákvæðri af­komu. Í Suður-Evrópu jókst sala um 3 pró­sent en hagnaður fyrir skatta var svipaður og í fyrra.

Sala í Norður-Evrópu jókst um 8 pró­sent og lægra laxa­verð styrkti af­komu á Ír­landi þar sem hagnaður fyrir skatta nam 58 milljónum króna. Sölu­deildin skilaði 21 pró­sents tekju­aukningu studd af mikilli eftir­spurn eftir þorski og hagnaður fyrir skatta nam þar 2,1 milljarði króna.

Heildar­eignir félagsins námu 36,2 milljörðum króna í lok júní sem er lítil­lega minna en í árs­byrjun.

Eigin­fjár­hlut­fall hækkaði í 30,2 pró­sent úr 28,6 pró­sentum í júní í fyrra.

Félagið lauk endur­fjár­mögnun í apríl og júní þar sem gefnar voru út óveð­tryggðar skuldir upp á 4 milljarða króna og skammtíma­skulda­bréf upp á 2,7 milljarða króna sem mun lækka fjár­magns­kostnað á komandi misserum.


„Horfur í efna­hags­málum eru áfram óvissar og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Vextir og verðbólga hafa lækkað á okkar helstu markaðs­svæðum auk þess að fjár­magns­kostnaður mun lækka í fram­haldi af endur­fjár­mögnun. Þó að hátt þorsks­verð og hækkandi verð á öðrum tegundum hafi aukið sölu­tekjur skapar það einnig áskoranir þar sem neyt­endur standa frammi fyrir hærri kostnaði. Af þeim sökum gæti eftir­spurn minnkað enn frekar, knúin áfram af minna fram­boði og verðhækkunum á lykilmörkuðum. Á sama tíma er fjár­mögnunar- og geymslu­kostnaður enn veru­legur, sem undir­strikar mikilvægi áfram­haldandi áherslu á fjár­magns­skipan félagsins og birgða­halds,“ segir Ægir.

Af­komu­spá félagsins fyrir árið 2025 er óbreytt og gerir ráð fyrir hagnaði fyrir skatta af reglu­legri starf­semi á bilinu 1,1 til 1,4 milljarðar króna.

Gert er ráð fyrir áfram­haldandi háu verði á þorski vegna skorts á fram­boði og að verð á laxi haldist stöðugt út árið.