Iceland Seafood International hf. (ISI) skilaði sterkri afkomu á fyrri árshelmingi 2025 með verulegri aukningu í tekjum og hagnaði, samkvæmt uppgjöri sem birtist eftir lokun markaða í dag.
Tekjur félagsins námu 33,7 milljörðum króna sem er 10 prósenta aukning frá sama tímabili í fyrra.
Framlegð jókst í 3,3 milljarða króna úr 2,7 milljörðum árið áður og EBITDA hækkaði í 1,3 milljarða króna samanborið við 720 milljónir í fyrra.
Á síðustu tólf mánuðum jókst EBITDA í 2,9 milljarða úr 1,8 milljörðum í fyrra.
Hagnaður fyrir skatta af reglulegri starfsemi tvöfaldaðist milli ára og fór úr 158 milljónum króna í 331 milljón. Hagnaður eftir skatta nam 158 milljónum króna á móti tapi upp á 101 milljón króna á sama tímabili 2024.
Þessi viðsnúningur skýrist meðal annars af mikilli eftirspurn eftir þorski og háu verði á honum ásamt lægra verði á laxi sem hefur bætt rekstur í Evrópu. Á móti vegur að óhagstæð gæðasamsetning í rækjuafla og gengissveiflur höfðu neikvæð áhrif.
„Fyrri hluti ársins 2025 einkenndist af mikilli eftirspurn eftir þorski og háum verðum. Bann Bandaríkjanna við innflutningi á rússneskum fiski hefur hækkað verð á hausuðum og slægðum þorski úr Barentshafi, auk þess sem minnkandi kvóti bæði í Barentshafi og Atlantshafi hefur haft mikil áhrif. Ef horft er fram í tímann er búist við takmörkuðu framboði af hvítfiski og áframhaldandi háu verði.
Verð á laxi var lægra en spáð hafði verið sem skilaði betri rekstrarárangri í laxastarfseminni, ólíkt síðustu tveimur árum þegar tap var af þeirri starfsemi. Afkoman á fyrri hluta árs 2025 var betri en á sama tímabili 2024 og horfurnar fyrir restina af árinu eru jákvæðar. Gert er ráð fyrir að laxaverð haldist stöðugt út þriðja ársfjórðung og fram á síðari hluta þess fjórða,“ segir Ægir Páll Friðbertsson forstjóri ISI.
Allar helstu rekstrareiningar félagsins skiluðu jákvæðri afkomu. Í Suður-Evrópu jókst sala um 3 prósent en hagnaður fyrir skatta var svipaður og í fyrra.
Sala í Norður-Evrópu jókst um 8 prósent og lægra laxaverð styrkti afkomu á Írlandi þar sem hagnaður fyrir skatta nam 58 milljónum króna. Söludeildin skilaði 21 prósents tekjuaukningu studd af mikilli eftirspurn eftir þorski og hagnaður fyrir skatta nam þar 2,1 milljarði króna.
Heildareignir félagsins námu 36,2 milljörðum króna í lok júní sem er lítillega minna en í ársbyrjun.
Eiginfjárhlutfall hækkaði í 30,2 prósent úr 28,6 prósentum í júní í fyrra.
Félagið lauk endurfjármögnun í apríl og júní þar sem gefnar voru út óveðtryggðar skuldir upp á 4 milljarða króna og skammtímaskuldabréf upp á 2,7 milljarða króna sem mun lækka fjármagnskostnað á komandi misserum.
„Horfur í efnahagsmálum eru áfram óvissar og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Vextir og verðbólga hafa lækkað á okkar helstu markaðssvæðum auk þess að fjármagnskostnaður mun lækka í framhaldi af endurfjármögnun. Þó að hátt þorsksverð og hækkandi verð á öðrum tegundum hafi aukið sölutekjur skapar það einnig áskoranir þar sem neytendur standa frammi fyrir hærri kostnaði. Af þeim sökum gæti eftirspurn minnkað enn frekar, knúin áfram af minna framboði og verðhækkunum á lykilmörkuðum. Á sama tíma er fjármögnunar- og geymslukostnaður enn verulegur, sem undirstrikar mikilvægi áframhaldandi áherslu á fjármagnsskipan félagsins og birgðahalds,“ segir Ægir.
Afkomuspá félagsins fyrir árið 2025 er óbreytt og gerir ráð fyrir hagnaði fyrir skatta af reglulegri starfsemi á bilinu 1,1 til 1,4 milljarðar króna.
Gert er ráð fyrir áframhaldandi háu verði á þorski vegna skorts á framboði og að verð á laxi haldist stöðugt út árið.