Nýsköpunarfyrirtækið Alor og gagnaversfyrirtækið atNorth hafa undirritað samning um aðkomu atNorth að vöruþróun og prófunum á nýrri tegund af vistvænum rafhlöðum og umsjónarkerfi þeirra. Með samstarfinu gefst Alor tækifæri til þess að prófa frumgerðir álrafhlaðna í samstarfi við sérfræðinga atNorth og í raunumhverfi í gagnaveri félagsins.
Í fréttatilkynningu segir að með þessum hætti verður unnt að þróa lausnir sem geta orðið hluti af varafaflskerfi atNorth.
„Markmið samstarfsins er að álrafhlöðurnar leysi af hólmi blýsýrurafgeyma sem nú eru hluti af varaaflskerfi atNorth. Síðar er stefnt að því að þróa lausnir sem geta dregið úr notkun olíuknúins varaafls.“
atNorth ráðgerir að fá frumgerðir til prufu á vormánuðum og ef allt gengur að óskum stefnir Alor að fyrstu framleiðslu á rafhlöðum fyrir árslok 2023.
Alor var stofnað árið 2020 til að þróa vistvænar álrafhlöður hér á landi, í samstarfi við Háskóla Íslands og spænska fyrirtækið Albufera Energy Storage sem er leiðandi í þróun á álrafhlöðum í Evrópu. Á næstu misserum mun Háskóli Íslands ljúka prófunum á frumgerðum álrafhlaðna Alor og í kjölfarið hefjast prófanir með atNorth.
Rafhlöður Alor verða svokallaðar kyrrstæðar rafhlöður sem unnt verður að raða saman eftir þörfum, allt frá KWh upp í MWh.
Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastýra Alor, segir kosti álrafhlaðnanna fjölmarga þar sem endingartíminn sé allt að þrefalt lengri en rafhlöðulausna á markaði í dag auk þess sem engin eld- og sprengihætta stafi af rafhlöðunum.
„Samstarfið við atNorth er mjög mikilvægt fyrir okkur. Það gerir okkur kleift að aðlaga vöruþróun og -hönnun að kröfuhörðum notanda sem veitir okkur sóknarfæri á markaði sem hefur mikil tækifæri til þess að stíga skref í átt að aukinni sjálfbærni,“ segir Linda Fanney.
„Þetta er mjög spennandi verkefni, enda eru umhverfisáhrif af eldri gerðum rafhlaðna umtalsverð á meðan rafhlöður Alor eru um 95% endurvinnanlegar og búnar til úr náttúrulegum hráefnum sem mikið er til af í jarðskorpunni. Við höfum sett okkur háleit markmið í umhverfismálum og viljum fasa út notkun á ósjálfbærum vörum sem ekki eiga möguleika á að fara í hringrásarhagkerfið. Samstarfið rímar vel við í sjálbærnistefnu atNorth og við sjáum mikil tækifæri í að taka þátt í nýsköpunarverkefni sem þessu,“ segir Ásdís Ólafsdóttir, sjálfbærni leiðtogi (ESG manager) atNorth.