Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis, kallar eftir því að skipulagslögum verði breytt þannig að ekki þurfi samþykki allra sveitarfélaganna sem standa að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til að ná fram breytingu á vaxtamörkum.
„[Ég vil] hvetja ríkisstjórnina og Alþingi til góðra verka, enda beinlínis um lífskjaramál að ræða að ná jafnvægi á fasteignamarkað, sem vandséð er að muni takast nema sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fái heimild til að byggja á stærra svæði miðað við þá miklu fólksfjölgun sem átt hefur sér stað á síðustu árum,“ segir Jón í aðsendri grein í Viðskiptamogganum í dag.
Skipulagsvaldinu kippt úr sambandi
Jón bendir á að samkvæmt skipulagslögum verði svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins ekki breytt nema með samþykki allra sjö sveitarfélaganna sem að því standa.
„Afar þungt og flókið verk er að ná fullri samstöðu aðildarsveitarfélaganna um breytingar, sérstaklega þegar jafn mörg sveitarfélög eiga aðild að því eins og á við um gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins.“
Hann vísar í fréttaflutning um að eitt sveitarfélag, Reykjavíkurborg, hafi lagst gegn útvíkkun vaxtamarka annarra sveitarfélaga og takmarkað þannig getu viðkomandi sveitarfélaga til að mæta aukinni eftirspurn eftir húsnæði á þeirra eigin skipulagssvæði.
Jón segir að frumvarp sem sjö þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu fram í september 2024 hefði skorið á þennan hnút.
„Í því frumvarpi var gert ráð fyrir að aukinn meirihluti gæti knúið fram breytingu á svæðisskipulagi, þ.e.a.s. fimm af sjö sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu gætu samkvæmt frumvarpinu kallað fram endurskoðun á svæðisskipulaginu. Ef frumvarpið hefði náð fram að ganga hefði neitunarvald hjá sérhverju sveitarfélagi verið fellt úr gildi. Auðvelt er að styðja slíka tillögu.“
Hann segir að einnig mætti styðja nálgun sem gengi enn lengra og spyr hvers vegna ætti meirihluti þeirra sveitarfélaga sem eiga aðild að svæðisskipulagi ekki að geta náð fram endurskoðun á svæðisskipulagi, þá sérstaklega ef breytingarnar varða þeirra sveitarfélög. Þannig væri komið í veg fyrir neitunarvald þriggja sveitarfélaga ef fjögur sveitarfélög standa saman.
„Rjúfa þarf stíflu í framboði byggingarhæfra lóða. Framboð íbúða verður ekki aukið nema með því að nýta óbyggt landsvæði víðsvegar á stórhöfuðborgarsvæðinu. En þar sem aðal- og deiliskipulagi verður ekki breytt hvað vaxtarmörk varðar nema að svæðisskipulagi verði breytt þá hefur skipulagsvaldi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í raun verið kippt úr sambandi.
Sú niðurstaða er í andstöðu við meginreglu sveitarstjórnarlaga en þar kemur fram að landinu sé skipt í sveitarfélög sem sjálf ráða málefnum sínum á eigin ábyrgð. Tryggja þarf að svo sé í raun.“
Forsendur brostnar
Vaxtarmörk höfuðborgarsvæðisins eru skilgreind í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015-2040. Svæðisskipulagið var samþykkt árið 2015 hjá öllum aðildarsveitarfélögum svæðisskipulagsins, þar á meðal í Kópavogi þar sem Jón sat í bæjarstjórn.
Forsendur skipulagsins hafi gert ráð fyrir að íbúum myndi fjölga um 70.000 út árið 2040, eða um 2.800 íbúa á ári yfir 25 ára skipulagstímabilsins. Fólksfjölgun var hins vegar 51% umfram forsendur skipulagsins , en á undanförnum 10 árum hefur íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um 4.236 á ári að meðaltali.
„Eftir á að hyggja var það ekki rétt að samþykkja svæðisskipulagið á þessum forsendum, sem nú hefur komið í ljós að hafa reynst of varfærnar, jafnvel þó þær hafi þótt hæfilegar á þeim tíma þegar svæðisskipulagið var samþykkt fyrir 10 árum. Veit ég þó vel að þó skipt sé um skoðun þá breytir það ekki stöðunni. Finna þarf aðrar lausnir,“ segir Jón sem rekur ástæður þess að fólksfjölgun var meiri á tímabilinu en gert var ráð fyrir.
Jón bendir á að frá árinu 2015 hafi vísitala neysluverðs hækkað um 57%, en án áhrifa húsnæðisliðar vísitölunnar hafi hækkunin numið 36%. Jón segir ójafnvægi í framboði og eftirspurn á fasteignamarkaði hafa verið talið leika hér stórt hlutverk, en þar leiki skortur á framboði lóða hlutverk.
„Íbúðir verða ekki byggðar nema að til staðar séu byggingarhæfar lóðir. Lóð innan sveitarfélags verður hins vegar ekki byggingarhæf nema lóðin sé skipulögð sem byggingarlóð í aðalskipulagi og deiliskipulagi hvers sveitarfélags. Samkvæmt skipulagslögum er svæðisskipulag hins vegar rétthærra en bæði aðal- og deiliskipulag.“